Síðustu fimm mínúturnar „framúrskarandi“

Trump sagði að síðustu fimm mínútur réttarhaldanna hafi verið framúrskarandi.
Trump sagði að síðustu fimm mínútur réttarhaldanna hafi verið framúrskarandi. AFP/Michael M.Santiago

Donald Trump, fyrrverandi Bandaríkjaforseti, mun mæta aftur á morgun í rétt­ar­sal í New York þar sem hann mun áfram svara fyr­ir ásak­an­ir um fjár­mála­m­is­ferli samkvæmt Fox News. Fyrsti dagur þessa einkamáls hófst í dag.

Trump og syn­ir hans eru sakaðir um að hafa vís­vit­andi blásið upp verðmæti fast­eigna og annarra fjár­mála­eigna sinna árum sam­an. 

Donald Bender, fyrrverandi endurskoðandi hjá fyrirtækinu sem sá um reikninga Trump-fjölskyldufyrirtækisins, bar í dag vitni um gerð ársreikninga fyrirtækisins um fjárhagsstöðu þess árið 2011 og sagði að stjórnendur þess hefðu að mestu lagt fram innsláttargögnin fyrir reikningana.

Trump virðist ánægður eftir fyrsta dag

Dóm­ar­inn í mál­inu, Arth­ur Engoron, sagði í lok réttarhaldanna í dag að ríkið þyrfti enn að leggja fram frekari sönnunargögn til að sanna að ársreikningurinn frá árinu 2011 væri innan fyrningarlaga. Greip Trump þessi orð dómarans sem sigur að hluta.

„Síðustu fimm mínúturnar voru framúrskarandi vegna þess að dómarinn féllst í raun á að þau fyrningarlög sem við unnum hjá áfrýjunardómstólnum væru í gildi. Þess vegna er um 80% málsins lokið,“ sagði Trump við fréttamenn eftir að hann yfirgaf dómsalinn.

Ekki var strax ljóst hvað fólst í yfirlýsingu Engorons en einn af lögmönnum Trumps sagði að þetta virtist þýða að dómarinn væri „sammála um að öll viðskipti sem fylgdu með fyrir árið 2014 séu nú dottin úr málinu“.

Réttarhöldin halda áfram á morgun.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert