Trump svarar til saka í New York

Donald Trump ásamt lögfræðiteymi sínu við komuna í dómshúsið í …
Donald Trump ásamt lögfræðiteymi sínu við komuna í dómshúsið í dag. Þar ræddi hann stuttlega við blaðamenn áður en hann gekk inn í dómsalinn. AFP

Donald Trump, fyrrverandi forseti Bandaríkjanna, mætti í réttarsal í New York í dag þar sem hann þarf að svara fyrir ásakanir um fjármálamisferli. Hann segir að einkamálið sem dómsmálaráðherra New York hafi höfðað á hendur sér sé „hryllingssýning“.

Trump hélt stutta tölu áður en hann gekk inn í dómsalinn ásamt fylgdarliði. Hann lét bæði dómsmálaráðherrann og dómarann í málinu heyra það. Dómarinn væri einfallega að spila með yfirvöldum. 

Letitia James, dómsmálaráðherra New York-ríkis, sagði fyrr í dag að réttlætið myndi ná fram að ganga í málinu, sem beinist gegn Trump og tveimur elstu sonum hans.

„Lögin eru bæði sterk og viðkvæm. Og í dag munum við sanna okkar mál,“ sagði James við blaðamenn fyrir utan dómshúsið í dag. Hún bætti við að það skipti hvorki máli „hversu valdamikill þú ert né hversu mikla peninga þú átt. Enginn er hafinn yfir lög.“

Letitia James, dómsmálaráðherra New York, ræddi við blaðmenn fyrir útan …
Letitia James, dómsmálaráðherra New York, ræddi við blaðmenn fyrir útan dómshúsið í dag. AFP

Trump og synir hans eru sakaðir um að hafa vísvitandi blásið upp verðmæti fasteigna og annarra fjármálaeigna árum saman. 

Trump segir málið vera umfangsmiklar nornaveiðar gegn sér. Hann stefnir á endurkjör í bandarísku forsetakosningunum sem fara fram á næsta ári, en fyrst þarf hann að tryggja sér útnefningu í forvali repúblikana. 

Dómarinn í málinu, Arthur Engoron, úrskurðaði nýverið að Trump og synir hans, Eric og Don yngri, hefðu framið fjársvik með því að ýkja upp virði eigna Trump Organization árum saman.

James fer fram á að Trump greiði 250 milljónir dala í bætur, sem samsvarar um 34 milljörðum kr., og hún fer einnig fram á að Trump og sonum hans verði vikið úr stjórn fjölskyldufyrirtækisins. 

AFP

Þetta er þó ekki eina dómsmálið sem Trump stendur frammi fyrir á næstunni. Hann á meðal annars að mæta fyrir dómara í mars á næsta ári þar sem hann er sakaður um að hafa átt þátt í að reyna að kollvarpa úrslitum forsetakosninganna árið 2020, þar sem Joe Biden hafði betur gegn Trump. 

Eftir það þarf hann að svara fyrir ásakanir um að hafa greitt mútur til að þagga niður í fólki og í Flórída þarf hann að mæta fyrir dómara þar sem hann er sakaður um að hafa farið óvarlega með leyniskjöl eftir að hann lét af embætti sem forseti Bandaríkjanna. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka