Hunter Biden lýsir yfir sakleysi sínu

Hunter Biden lýsti yfir sakleysi sínu er hann fór fyrir …
Hunter Biden lýsti yfir sakleysi sínu er hann fór fyrir dómstól í Wilmington í Delaware-ríki í dag. AFP

Hunter Biden, sonur Joe Biden Bandaríkjaforseta, hefur lýst yfir sakleysi sínu í kjölfar ákæru sem gefin var út á hendur honum vegna ólögmætrar byssueignar. 

Biden, sem er 53 ára, mætti fyrir dómstól í heimabæ fjölskyldu sinnar í Wilmington í Delaware í dag. Þar hélt hann fram sakleysi sínu í þremur ákærum um glæpi vegna kaupa hans á Colt Cobra-byssu árið 2018. 

Þegar Biden festi kaup á byssunni kveðst hann hafa verið í mikilli neyslu eiturlyfja og haft litla stjórn á eigin lífi. Honum er gefið að sök að hafa fært inn rangar upplýsingar á eyðublöðum sem fylgdu byssukaupunum þar sem krafist er að viðkomandi sé ekki undir áhrifum fíkniefna. 

Hunter Biden hefur verið reglulega í sviðsljósinu undanfarin misseri vegna ýmissa lagalegra vandræða sem haft gætu áhrif á ímynd föður hans sem hyggst sækjast eftir endurkjöri í kosningunum á næsta ári.

Í kjölfar ásakananna á hendur syni sínum hefur Joe Biden sagst standa þétt við bakið á honum og að hann elski hann fyrir að hafa barist gegn fíknivandanum, sem háð hefur honum um nokkurt skeið. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert