Trump segir réttarhöldin vera nornaveiðar

Dómari í máli Trump hefur lagt bann við ummælum í …
Dómari í máli Trump hefur lagt bann við ummælum í garð dómstólsins í kjölfar niðrandi athugasemda fyrrverandi Bandaríkjaforsetans á samfélagsmiðlum. AFP/Andrew Caballero-Reynolds

Arthur Engoron, dómari í einkamáli Donalds Trumps, fyrrverandi Bandaríkjaforseta, hefur bannað öllum sem koma að málinu að tjá sig um starfsfólk dómstólsins.

Bannið tók gildi í kjölfar niðrandi ummæla sem Trump lét falla um starfsmann dómstólsins á samfélagsmiðlum. Á Trump meðal annars að hafa kallað viðkomandi brjálaðan en færsla hans hefur nú verið fjarlægð. 

Lét sig ekki vanta í réttarsal

Þrátt fyrir að þurfa ekki að vera viðstaddur fyrstu tvo daga réttarhaldanna í New York, lét fyrrverandi Bandaríkjaforseti sig ekki vanta þegar meðferð í málinu hófst í gær. 

„Mig langar að horfa á þessar nornaveiðar sjálfur,“ sagði Trump í viðtali við fjölmiðla í gær, að því er fram kemur í umfjöllun AFP. 

Ætlað að grafa undan honum

Í réttarhöldunum sem standa nú yfir, hefur Trump verið gefið að sök að hafa logið ítrekað að skattinum, lánveitendum og vátryggingafélögum um margra ára skeið með því að ýkja verðmæti eigna sinna og sona sinna um 812 milljónir bandaríkjadala, sem nema tæplega 113,6 milljörðum íslenskra króna. 

Trump hefur ítrekað lýst yfir sakleysi sínu í málinu og haldið því fram að réttarhöldin séu umfangsmikið svindl. Þeim sé ætlað að grafa undan kosningabaráttu hans á næsta ári þar sem hann hyggst sækjast eftir kjöri forseta Bandaríkjanna á nýjan leik. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert