Ætlar ekki að leyfa Trump að leggja sig í einelti

Letitia James, dómsmálaráðherra New York-ríkis.
Letitia James, dómsmálaráðherra New York-ríkis. AFP/Spencer Platt

Le­titia James, dómsmálaráðherra New York-ríkis, gagnrýndi í dag Donald Trump, fyrrverandi Bandaríkjaforseta, harðlega fyrir gagnrýni hans á fjársvikamáli sem hún höfðaði gegn honum og sagði að hún yrði „ekki lögð í einelti“.

„Donald Trump-þátturinn er búinn,“ sagði James við fréttamenn eftir að Trump yfirgaf réttarsalinn í miðjum réttarhöldunum í dag.

Áður en Trump yfirgaf dómsalinn gagnrýndi hann réttarhöldin og dómarann og sagði réttarhöldin gerð til þess að hnekkja á forsetaframboði hans.

„Ég vil frekar vera í New Hampshire, Suður-Karólínu eða Ohio eða mörgum öðrum stöðum,“ sagði Trump. „En ég er fastur hér vegna þess að ég er með spilltan dómsmálaráðherra.“

Gagnrýni Trumps og Repúblikana á Letitiu James hefur að miklu leyti verið byggð á því að þegar hún bauð sig fram í embætti dómsmálaráðherra árið 2018 þá kallaði hún Trump „ólögmætan forseta“ og kvaðst óhrædd við að „skora hann á hólm“.

Segir ummæli Trumps ýta undir ofbeldi

James svaraði þó ummælum Trumps í dag og sagði: „Ég læt ekki leggja mig í einelti“ og fordæmdi ákvörðun hans um að mæta á opnunardaga réttarhaldanna sem „pólitískt glæfrabragð og tækifæri til fjáröflunar“.

James sagði að persónulegar árásir Trumps á hana í vikunni væru „móðgandi, tilhæfulausar og án staðreynda eða nokkurra sönnunargagna“.

Segir hún að ummæli hans ýti undir ofbeldi og kynþáttafordóma.

„Þetta mál var höfðað einfaldlega vegna þess að þetta er mál þar sem einstaklingar hafa stundað fjársvik. Ég mun ekki sitja aðgerðarlaus hjá og leyfa neinum að grafa undan lögunum,“ sagði James meðal annars.

Neitar alfarið sök

Í rétt­ar­höld­un­um sem standa nú yfir, hef­ur Trump verið gefið að sök að hafa logið ít­rekað að skatt­in­um, lán­veit­end­um og vá­trygg­inga­fé­lög­um um margra ára skeið með því að ýkja verðmæti eigna sinna og sona sinna um 812 millj­ón­ir banda­ríkja­dala, sem nema tæp­lega 113,6 millj­örðum ís­lenskra króna. 

Trump hef­ur ít­rekað lýst yfir sak­leysi sínu í mál­inu og eru kosningaauglýsingar nú framleiddar af kosningateymi Trumps til að grafa undir réttarhöldunum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert