Kapphlaupið hafið

Á myndinni má sjá Jim Jordan til vinstri og Steve …
Á myndinni má sjá Jim Jordan til vinstri og Steve Scalise til hægri. AFP/Samsett mynd

Þingmennirnir Steve Scalise, leiðtogi meirihlutans í fulltrúadeildinni, og Jim Jordan hafa gefið kost á sér til að verða næsti forseti fulltrúadeildar Bandaríkjaþings í kjölfar þess að Kevin McCarthy var bolað úr þeirri stöðu í gærkvöldi.

Gert er ráð fyrir að þingflokkur repúblikana kjósi arftaka McCarthys í næstu viku.

Jim Jordan er af mörgum talinn einn íhaldssamasti þingmaður Bandaríkjaþings og er feiknavinsæll meðal margra repúblikana. Steve Scalise er einnig mjög vinsæll með flokksbræðra sinna og er búinn að senda kollegum sínum bréf þar sem hann útskýrir af hverju hann telur sig vera rétta manninn í þetta vægast sagt erfiða starf.

Í bréfinu kallaði hann þingflokk repúblikana „fjölskyldu“ og talaði um stuðninginn sem hann hlaut frá þeim í kjölfar þess að hann var skotinn á hafnaboltaæfingu þingsins árið 2017 og hlaut lífshættulega áverka.

„Guð gaf mér nú þegar annað tækifæri í lífinu,“ skrifaði hann. „Ég held að við höfum öll verið sett hingað í ákveðnum tilgangi. Þessi næsti kafli verður ekki auðveldur en ég veit hvað þarf til að berjast og ég er tilbúinn fyrir baráttuna sem er fram undan,“ stóð meðal annars í bréfinu.

Segir Bandaríkin á krossgötum

Jim Jordan hefur einnig sent kollegum sínum bréf þar sem hann fer í löngu máli yfir það sem hann metur vera léleg störf Joe Bidens Bandaríkjaforseta og segir mikilvægt að repúblikanar standi fyrir gefin kosningaloforð.

„Við stöndum á krossgötum í sögu þjóðar okkar. Nú er rétti tíminn til  þingflokkur repúblikana komi saman til  efna loforð okkar við Bandaríkjamenn. Vandamálin sem við stöndum frammi fyrir eru krefjandi, en þau eru ekki óyfirstíganleg.

Við getum einbeitt okkur að þeim breytingum sem bæta landið og sameinað okkur í að bjóða upp á raunverulegar lausnir. En sama hvað við gerum, verðum við að gera það saman sem þingflokkur,“ stendur meðal annars í bréfinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert