Commander, sem er þýskur fjárhundur Joe Biden forseta Bandaríkjanna, hefur verið vikið úr Hvíta húsinu eftir að hafa ítrekað gerst sekur um að bíta fólk.
Enn hefur ekki verið ákveðið hvað verður um Commander, en hann beit leyniþjónustufulltrúa í Hvíta húsinu í síðustu viku. Þetta kemur fram á vef breska útvarpsins.
Leyniþjónustufulltrúinn fékk viðeigandi meðferð á staðnum í kjölfar atviksins. Um er að ræða ellefta atvikið, sem vitað er um, þar sem hundurinn bítur manneskju í Hvíta húsinu eða á heimili Biden-hjónanna.
Í tilkynningu frá Hvíta húsinu, sem send var út í gær, segir að forsetahjónunum sé mjög annt um öryggi þeirra sem vinna í Hvíta húsinu og þeirra sem vernda þau á hverjum degi.
Þar segir jafnframt að hjónin séu þakklát fyrir þolinmæðina og þann stuðning sem bandaríska leyniþjónustan og allir hlutaðeigendur hafa sýnt þeim, á meðan unnið er að því að leita lausna vegna Commander.
Í tilkynningunni kemur ekki fram hvar hundurinn er núna eða hvort hann muni snúa aftur í Hvíta húsið, en tilkynningin var birt skömmu eftir að CNN greindi frá því Commander hefði bitið fleiri en búið er að viðurkenna.
Í tilkynningu frá Hvíta húsinu í júlí sagði að forsetahjónin væru að vinna í því að þjálfa Commander og innleiða nýtt kerfi fyrir hann. Var þá sagt að í Hvíta húsinu væri umhverfið oft ófyrirsjáanlegt, ekki síst fyrir ungan hund.
Commander var einnig sendur frá Hvíta húsinu árið 2021, þegar hann dvaldi hjá fjölskylduvinum Biden-hjónanna, en þá fékk hann jafnframt viðbótarþjálfun.