Fundu mikið magn sprengiefnis

Mikið magn sprengiefnis fannst við húsleit í Stokkhólmi í gærkvöldi. …
Mikið magn sprengiefnis fannst við húsleit í Stokkhólmi í gærkvöldi. Myndin tengist öðru máli. AFP

Lögreglan í sænsku höfuðborginni Stokkhólmi lagði í gærkvöldi hald á mikið magn sprengiefnis við húsleit þar í borginni og er málið talið tengjast öðru máli í Uppsala sem nú er til rannsóknar hjá lögreglu og útvegaði hún sér húsleitarheimild í krafti þess máls.

Níu manns reyndust á staðnum þegar lögregla réðst til inngöngu í einbýlishúsið sem sprengiefnin fundust í og lét nágranni sem sænska blaðið Expressen ræddi við, þess getið að tíðar mannaferðir til og frá húsinu hefðu vakið athygli í nágrenninu.

Hús rýmd og götum lokað

Var tæknifólk lögreglu ásamt sprengiefnadeild lögreglunnar á vettvangi til miðnættis í gærkvöldi. Rýmdi lögregla nokkur hús í nágrenninu í öryggisskyni og lokaði götum en lokunum og rýmingu var aflétt í nótt.

Mikið hefur verið um sprengjutilræði í Svíþjóð síðasta mánuðinn og ekki lengra síðan en vika að kona á þrítugsaldri lét lífið í einu slíku.

Í nótt fannst 25 ára gamall maður með skotsár í Brandbergen, suður af Stokkhólmi, og var fluttur á sjúkrahús. Tveir menn á þrítugsaldri voru handteknir í leigubifreið skömmu síðar og liggja undir grun um að tengjast verknaðinum.

SVT

Aftonbladet

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert