Sprenging í einbýlishúsi í morgun

Lögregla rannsakar nú vettvanginn en maður sem hefur tengingar á …
Lögregla rannsakar nú vettvanginn en maður sem hefur tengingar á heimilisfang sprengingarinnar er grunaður um að vera viðriðinn morð í Skogås í janúar. AFP

Sprenging varð í einbýlishúsi í Upplands-Bro norður af Stokkhólmi í morgun.

Lögregla rannsakar nú vettvanginn en maður sem hefur tengingar við heimilisfangið þar sem sprengjan sprakk er grunaður um að vera viðriðinn morð í Skogås í janúar.

Sænska ríkisútvarpið, SVT, greinir frá.

Húsið virðist hafa verið mannlaust

Talsmaður lögreglu segir að ekki séu neinar upplýsingar fyrir hendi um meiðsli á fólki en svo virðist sem húsið hafi verið mannlaust þegar sprengingin varð.

Tilkynning um sprenginguna barst lögreglu um sjöleytið í morgun að staðartíma. Töluverður fjöldi viðbragðsaðila var ræstur út, bæði lögregla, sjúkra- og slökkvilið.

„Við höfum hafið frumrannsókn meðal annars á brotum á lögum um eldfim efni og sprengiefni,“ sagði talsmaður lögreglu.

Enginn hefur verið handtekinn vegna sprengingarinnar. 25 ára gamall karlmaður sem er eftirlýstur af lögreglu í tengslum við morð á 15 ára gömlum dreng í Skogås í janúar tengist heimilisfanginu þar sem sprengjan sprakk. Lögregla telur manninn vera staddan erlendis.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert