Mohammadi hlýtur friðarverðlaun Nóbels

Narges Mohammadi.
Narges Mohammadi. AFP

Narges Mohammadi, baráttukona fyrir réttindum kvenna í Íran, hefur hlotið friðarverðlaun Nóbels.

Nóbelsnefndin sagði hana hafa hlotið verðlaunin fyrir baráttu hennar gegn kúgun kvenna í Íran og baráttu hennar fyrir mannréttindum og frelsi fyrir alla, að sögn BBC.

Nóbelsnefndin sagði jafnframt að hetjulegri baráttu Mohammadi hefði fylgt mikill persónulegur fórnarkostnaður.

Narges Mohammadi á heimili sínu í Tehran árið 2001.
Narges Mohammadi á heimili sínu í Tehran árið 2001. AFP/Behrouz Mehri

„Í heildina hefur klerkaveldið handtekið hana 13 sinnum, fundið hana seka fimm sinnum og dæmt hana í samtals 31 árs fangelsi og til 154 svipuhögga,” sagði Berit Reiss-Andersen, yfirmaður nefndarinnar.

Hún bætti við að Mohammadi væri enn í fangelsi.

Verðlaunin verða afhent við hátíðlega athöfn í Ósló, höfuðborg Noregs, 10. desember. Nóbelsnefndin hefur hvatt írönsk stjórnvöld til að sleppa Mohammadi úr haldi og vonast nefndin til að hún geti í framhaldinu tekið á móti verðlaununum.

Berit Reiss-Andersen er hún tilkynnti um hver hefði hlotið friðarverðlaun …
Berit Reiss-Andersen er hún tilkynnti um hver hefði hlotið friðarverðlaun Nóbels. AFP/Terje Pedersen

Mohammadi er varaforseti Miðstöðvar mannréttinda sem íranski mannréttindalögmaðurinn Shirin Ebadi, sem sjálf hlaut friðarverðlaun Nóbels árið 2003, stofnaði.

Rúmt ár síðan mótmæli hófust 

Ákvörðun Nóbelsnefndarinnar um að veita Mohammadi verðlaunin er tekin rúmu ári eftir mikil mótmæli í Íran þar sem konur voru í fararbroddi.

Þau hófust í september í fyrra eftir að Mahsa Amini, 22 ára, lést í haldi írönsku lögreglunnar.

Mótmælin stóðu yfir víðsvegar um landið þar sem krafist var aukins frelsins. Íranskar konur kveiktu í slæðum sínum og hrópuðu „konur, líf, frelsi”.

Írönsk stjórnvöld hafa á grimmilegan hátt kæft niður mótmælin, sem eru að mestu leyti hætt.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka