Donald Trump, fyrrverandi Bandaríkjaforseti, styður Jim Jordan, sem er langt til hægri í Repúblikanaflokknum, sem næsta forseta fulltrúadeildar Bandaríkjaþings.
Á samfélagsmiðli sínum Truth Social sagði Trump að Jordan verði „frábær forseti fulltrúadeildarinnar og hefur allan minn stuðning!”
Nokkrum klukkustundum áður hafði Trump boðist til að taka tímabundið við hlutverki forsetans eftir að Kevin McCarthy var bolað í burtu úr embættinu fyrr í vikunni.
Jordan, sem er 59 ára, er á lista yfir eftirmenn McCarthy. Hann hefur haft uppi efasemdir um fjárstuðning Bandaríkjanna til Úkraínu.
Jordan hefur einnig verið fremstur í flokki þeirra sem vilja að Joe Biden Bandaríkjaforseti verði ákærður fyrir embættisbrot en það hefur valdið pirringi á meðal margra samflokksmanna Jordans í Repúblikanaflokknum.