Sendiherra Ísraels í Frakklandi sagði í frönskum fjölmiðlum í dag að land hans væri ekki nógu vel búið undir árásir hryðjuverkasamtakanna Hamas og að leyniþjónustan hefði brugðist.
Um 100 ísraelskir borgarar hafa látist í árásunum, sem hófust í nótt, og 900 særðir en hátt í 200 Palestínumenn eru látnir í gagnárásum ísraelska hersins.
„Árásin var óvænt. Við vorum ekki nógu vel búin undir hana, jafnvel ekkert yfirhöfuð,“ sagði Raphael Morav, sendiherra Ísraels í Frakklandi, í samtali við frönsku útvarpsstöðina Europe 1.
Spurður hvort ísraelska leyniþjónustan hefði gert mistök sagði hann:
„Án efa, án efa... í venjulegu árferði hefðum við verið tilbúin. Þetta verður lexía,“ sagði hann.
Ísraelar svöruðu árásum Hamas, í lofti og á landi, með loftárásum sem eru þær mannskæðustu síðan í maí 2021.