Volodimír Selenskí, forseti Úkraínu, varaði við því í gær að Rússar myndu aftur reyna að eyðileggja orkuinnviði Úkraínu í vetur. Stjórnvöld í Kænugarði væru að undirbúa hitaveitur landsins.
Innrás Rússa í Úkraínu hófst fyrir tæplega 20 mánuðum. Síðasta vetur beindu Rússar gjarnan spjótum sínum að úkraínskum orkuinnviðum, með þeim afleiðingum að þúsundir Úkraínumanna þurftu að þola frostið, sem getur verið mikið á sumum svæðum landsins.
Er veturinn nálgast hafa áhyggjur af orkuöryggi Úkraínumanna sömuleiðis aukist.
„Í vetur munu Rússnesku hryðjuverkamennirnir aftur reyna að eyðileggja orkukerfið okkar,“ sagði Selenskí í kvöldávarpi sínu í gær. „Við erum meðvituð um hættuna.“
Bætti hann við að stjórnvöld í Kænugarði búi sig undir „verndun orkuveitna og útvegun orku og hita, viðgerð alls þess sem hefur eyðilagst í rússneskum loftárásum og hernaðaraðgerðum“. Þá sagði hann að það væri mjög mikilvægt fyrir fólkið í landinu „að vinna þennan vetur“.
Fyrr í mánuðinum lýstu stjórnvöld áhyggjum af erfiðum vetri sem blasiti við í kjölfar þess að þrír létu lífið í rússneskri flugskeytahríð í sunnanverðri Úkraínu og fleiri slösuðust víða í landinu. Árásin olli einnig skemmdum á orkuinnviðum landsins en of snemmt er að segja til um hvort árásir á orkuinnviði sé ný hernaðaraðgerð Rússa.