Segja 200 Palestínumenn látna í gagnárásum

Hundurðir hafa látist vegna hryðjuverkaaðgerða Hamas.
Hundurðir hafa látist vegna hryðjuverkaaðgerða Hamas. AFP/Oren ZIV

Um 100 ísraelskir borgarar hafa verið drepnir af palestínsku hryðjuverka- og stjórnmálasamtökunum Hamas og 900 eru særðir. Hryðjuverk Hamas hófust í nótt.

Samkvæmt tölum frá heilbrigðisyfirvöldum á Gaza þá eru hátt í 200 Palestínumenn látnir í gagnárásum ísraelska hersins.

Tugir ísraelskra borgara hafa verið teknir gíslingu af Hamas sem þeir hyggjast nota sem skiptimynt til að fá lausa palestínska fanga í Ísrael, sem eru margir hverjir hryðjuverkamenn. Palestínskir vígamenn hafa áður notað gísla sem skiptimynt til að tryggja lausn vígamanna sem eru í fangelsum í Ísrael.

Árásirnar á lofti, landi og sjó

Hryðjuverkin haf falið í sér umfangsmikla eldflaugahrinu, hryðjuverkamenn streymdu yfir landamærin í nótt og morgun og einnig eru aðgerðir á sjó. Samkvæmt BBC eru hryðjuverkin vel skipulögð og nánast fordæmalaus.

Ísraelski herinn segir nú að sjóherinn hafi drepið tugi palestínskra hryðjuverkamanna sem ferðuðust yfir sjóinn til að komast inn í landið.

Anthony Blinken, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, segir stjórnvöld í Bandaríkjunum fordæma afdráttarlaust árásir Hamas.

„Það er aldrei nein réttlæting fyrir hryðjuverkum. Við stöndum í samstöðu með stjórnvöldum og ísraelsku þjóðinni og vottum samúð okkar til þeirra Ísraela sem hafa látið líf sitt í þessum árásum. Við munum vera í nánu sambandi við ísraelska samstarfsaðila okkar. Bandaríkin styðja rétt Ísraels til að verja sig,“ segir Blinken í yfirlýsingu.

Ísraelskum ríkisborgurum er slátrað á götum úti.
Ísraelskum ríkisborgurum er slátrað á götum úti. AFP/Baz Ratner

Íran styður hryðjuverkaaðgerðirnar

Fáar þjóðir hafa stutt hryðjuverkamennina en þó hafa ríki eins og Íran, sem talið er styðja hvað mest allra ríkja við hryðjuverkastarfsemi, stutt árásina.

Nasser Kanani, talsmaður utanríkisráðuneytis Írans, fagnaði árásum á Ísrael.

„Aðgerðin í dag markaði ný tímamót á sviði andspyrnu og vopnaðra aðgerða gegn hernámsliðinu,“ sagði hann.

„Andspyrnuhreyfingin hefur hingað til unnið glæsilega sigra í þessari aðgerð og þetta er góður dagur í sögu palestínsku þjóðarinnar í baráttu sinni gegn síonistum.“

Hezbollah  segir hryðjuverkin „afgerandi viðbrögð við áframhaldandi hernámi Ísraels og skilaboð til þeirra sem vilja koma á eðlilegu ástandi við Ísrael“.

Hezbollah er mikill andstæðingur Ísraels og fór í stríð við landið árið 2006. Hezbollah reiðir sig á hernaðarlegan og fjárhagslegan stuðning frá Íran.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert