Segja stríð hafið í Ísrael

Varnarmálaráðherra Ísrael segir að Hamas-samtökin hafi hafið stríð gegn Ísrael með flugskeytaárásum sem áttu sér stað í nótt. Mohammed Deif, leiðtogi innan Hamas-samtakanna, segir að fimm þúsund flugskeytum hafi verið skotið frá Gasasvæðinu.

Að minnsta kosti 22 Ísraelar eru látnir og um 545 eru særðir.

Flugskeytunum var skotið frá nokkrum stöðum á Gasa. Í yfirlýsingu segjast samtökin hafa ákveðið að „stöðva glæpi hernámsliðsins, að tími yfirgangs þess án afleiðinga væri liðinn.“

Gagnsókn þegar hafin

Fréttamenn AFP greina frá því að Ísrael hafi þegar hafið gagnsókn með loftárásum á Gasasvæðið. 

Þá geisa skotbardagar milli ísraelskra og palestínskra hersveita nú á ýmsum stöðum í suðurhluta Ísrael.

„Hermenn berjast gegn óvininum á öllum stöðum,“ sagði Yoav Gallant, varnarmálaráðherra Ísraels, í yfirlýsingu. Hann sagði Hamas-samtökin hafa gert „alvarleg mistök“ og lýsti því yfir að Ísrael myndi vinna stríðið.

„Við eigum í stríði,“ lýsti Benjamin Netanyahu, forsætisráðherra Ísraels, yfir fyrir skömmu. Hann sagði óvininn eiga eftir að gjalda fyrir árásirnar.

Árásirnar áttu sér stað í Ísrael í nótt.
Árásirnar áttu sér stað í Ísrael í nótt. AFP/Mahmud Hams
Frá borginni Ashkelon í suðurhluta Ísraels í morgun.
Frá borginni Ashkelon í suðurhluta Ísraels í morgun. AFP/Ahmad Gharabli
Liðsmenn ísraelskra hersveita leita skjóls á meðan eldflaugum er skotið …
Liðsmenn ísraelskra hersveita leita skjóls á meðan eldflaugum er skotið frá Gasasvæðinu. AFP/Ahmad Gharabli
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert