Þjóðarleiðtogar fordæma árásir Hamas

Palestínskir vígamenn halda í átt að landamæragirðingunni við Ísrael frá …
Palestínskir vígamenn halda í átt að landamæragirðingunni við Ísrael frá Gasasvæðinu. AFP/Said Khatib

Þjóðarleiðtogar hafa margir fordæmt árásir palestínsku Hamas-samtakanna á Ísrael. Veigamiklar árásir af höndum samtakanna hófust í nótt og hefur um 5.000 flugskeytum verið skotið frá Gasa­svæðinu yfir til Ísrael í átt að almennum borgurum og byggingum.

Að minnsta kosti 40 Ísraelar eru látnir og 740 særðir. Ísraelar hófu gagnsókn í morgun og hafa yfir 160 Palestínumenn farist í árásum á Gasasvæðinu.

Úkraínumenn lýstu í morgun yfir samstöðu með Ísrael í kjölfar árásanna.

„Úkraína fordæmir harðlega yfirstandandi hryðjuverkaárásir gegn Ísrael, þar á meðal flugskeytaárásir á almenna borgara í Jerúsalem og Tel Aviv. Við lýsum yfir stuðningi okkar við Ísrael og rétti þeirra til að verja sig og þjóð sína,“ segir í yfirlýsingu utanríkisráðuneytis Úkraínu. Þá hvöttu Rússar til aðhalds frá öllum hliðum.

Standa með íbúum Ísraels

Bandaríkjamenn fordæmdu einnig árásirnar.

„Bandaríkin fordæma ótvírætt tilefnislausar árásir Hamas-hryðjuverkamanna á ísraelska borgara,“ sagði talskona þjóðaröryggisráðsins, Adrienne Watson, í yfirlýsingu og bætti við að „ekkert réttlæti hryðjuverk“.

„Við stöndum eindregið með ríkisstjórninni og íbúum Ísraels,“ bætti hún við.

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra Íslands hefur einnig fordæmt árásir Hamas-samtakanna á Ísrael og segir að ofbeldinu verði að linna.

„Fólk á skilið frið og öryggi,“ skrifar hún í færslu á samfélagsmiðlinum X, áður Twitter.

Recep Tayyip Erdogan, forseti Tyrklands, hvatti Ísraela og Palestínumenn til að „bregðast skynsamlega við “ og forðast frekari stigmögnun.

„Við hvetjum alla aðila til að bregðast við með sanngjörnum hætti og halda sig frá hvatvísum skrefum sem ýta undir spennu,“ sagði Erdogan.

Liðsmenn ísraelska hersins í Tel Aviv.
Liðsmenn ísraelska hersins í Tel Aviv. AFP/Gil Cohen-Magen

Krefjast þess að ofbeldinu linni

Þá hefur Evrópusambandið fordæmt árásirnar og hvatt til þess að ofbeldinu verði tafarlaust hætt.

Ursula von der Leyen, forseti framkvæmdastjórnar ESB, sagðist „afdráttarlaust“ fordæma „hryðjuverkaárás Hamas á Ísrael“ og sagði árásina vera „hryðjuverk í sinni fyrirlitlegustu mynd“.

Sagði hún Ísrael eiga rétt á að verjast slíkri árás.

Spánverjar lýstu einnig yfir hneykslun á ofbeldinu.

„Við fordæmum harðlega hinar afar alvarlegu hryðjuverkaárásir frá Gasa gegn Ísrael,“ skrifaði Jose Manuel Albares utanríkisráðherra á X, áður Twitter.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert