Um 120 látnir eftir öflugan jarðskjálfta

Frá Herat-sýslu í Afganistan eftir jarðskjálftann.
Frá Herat-sýslu í Afganistan eftir jarðskjálftann. AFP/Mohsen Karimi

Yfirvöld í Afganistan telja um 120 látna eftir að jarðskjálfti af stærð 6,3 reið yfir vesturhluta landsins fyrr í dag. Yfir þúsund hafa leitað aðhlynningar vegna meiðsla.

Mælingar gefa til kynna að upptök skjálftans hafi verið um 40 kílómetra norðvestan við borgina Herat. Um átta eftirskjálftar greindust á mælum og voru þeir á bilinu 4,3 til 6,3 að stærð.

„Yfir þúsund slasaðar konur, börn og eldriborgarar eru skráð hjá okkur, og um 120 hafa misst líf sitt,“ segir í yfirlýsingu frá yfirvöldum.

Hlupu út úr byggingum

Um klukkan 11 að staðartíma í morgun sáust íbúar hlaupa út úr byggingum í Herat er jörðin tók að skjálfa.

„Við vorum á skrifstofunni og skyndilega byrjaði byggingin að hristast,“ sagði Bashir Ahmad, við fréttastofu AFP.

„Ég get ekki haft samband við fjölskyldu mína, nettengingar liggja niðri. Ég hef miklar áhyggjur, þetta er hræðilegt ástand,“ bætti hann við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert