Auka lögregluvernd af ótta við aukið ofbeldi

Gyðingaandúð er meira áberandi samkvæmt ADL í kjölfar innrásar palestínsku …
Gyðingaandúð er meira áberandi samkvæmt ADL í kjölfar innrásar palestínsku hryðjuverkasamtakanna Hamas. AFP/Daniel Leal

Bretland, Frakkland, Þýskaland, Spánn og Ítalía hafa gripið til þess ráðs að efla lögregluvernd hjá  samfélögum gyðinga og á bænastöðum þeirra. Aukin hætta er talin vera á ofbeldi gagnvart gyðingum í kjölfar innrásar hryðjuverkasamtakanna Hamas í Ísrael.

Þetta kemur fram í frétt Politico.

Lögreglan í Lúndunum kveðst vita af „tilvikum, þar með talið þeim sem hafa verið deilt á samfélagsmiðlum, sem tengjast átökunum í Ísrael og við landamæri Gaza“. Því sé lögreglan búin að auka eftirlit á götum borgarinnar.

Í frétt Telegraph er Twitter-myndband sem virðist sýna hóp fólks fagna árásinni á Ísrael á götum Lúnduna.

Gyðingaandúð meira áberandi

Gérald Darmanin, innanríkisráðherra Frakklands, sagði í gær að hann hefði beðið lögreglustjóra víðs vegar um Frakkland um að auka öryggi gyðinga en að engar hótanir hefðu borist hingað til, samkvæmt Huffington Post. Hann kveðst ætla boða til fundar til að meta ástandið.

Lögregluyfirvöld á Spáni, Ítalíu og í Þýskalandi kveðast einnig hafa aukið verndarráðstafanir við stofnanir og bænastaði gyðinga og Ísraela.

Alþjóðlegu mann­rétt­inda­sam­tök­in Anti-Defamation League (ADL), sem berj­ast gegn gyðinga­andúð, segja í tilkynningu á vefsíðu sinni að gyðingaandúð hafi aukist í kjölfar innrásar Hamas.

„Gögn okkar sýna að öfgamenn virðast vera uppörvaðir af árás Hamas og hafa aukið ofbeldisfulla orðræðu sína, birt hatursfull skilaboð og hvetja til frekari árásargirni gegn Ísrael og stuðningsmönnum þess."

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka