Myndefni dreift af gíslatökum

Fjöldi fólks hefur verið tekinn í gíslingu.
Fjöldi fólks hefur verið tekinn í gíslingu. AFP

Fjöldi óbreyttra borgara, þar á meðal börnum, hefur verið rænt í átökum Hamas og Ísrael auk þess sem nokkrir hermenn hafa verið teknir í gíslingu.

Gert er ráð fyrir að gíslatakan flæki fyrir aðgerðum Ísraelsmanna á Gasasvæðinu og ekki er ljóst hvernig Ísraelsher hyggst frelsa gíslana. Talið er að Hamas muni reyna að bjóða ísraelska borgara í skiptum fyrir liðsmenn samtakanna sem eru í haldi Ísraelsmanna. Ekkert er þó enn ljóst í þessum efnum og enn er ekki á hreinu hve margir og hverjir séu í haldi Hamas.

Myndir af ódæðisverkunum hafa farið sem eldur um sinu á samskiptamiðlinum Telegram og hefur verið hægt að staðfesta að ung kona sem er numin á brott á mótorhjóli sé Noa Argmani sem var ein þeirra sem sótti tónlistarhátíð í eyðimörkinni sem var helguð friði.

Mikill fjöldi ungs fólks hafði safnast saman í eyðimörkinni til að skemmta sér á tónlistarhátíðinni þegar Hamas-liðar létu til skarar skríða og lágu fleiri í valnum á meðan aðrir náðu að flýja. Birst hafa myndbönd af Argmani á lífi en í haldi Hamas-liða.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert