„Við erum á leið í langt og erfitt stríð“

Frá Tel Aviv í Ísrael eftir flugskeytaárás Hamas-samtakanna.
Frá Tel Aviv í Ísrael eftir flugskeytaárás Hamas-samtakanna. AFP/Jack Guez

Ísraelski herinn segir að barist sé við Hamas-liða á átta svæðum, en kveðst hafa endurheimt yfirráð á 22 svæðum í suðurhluta landsins. Rúmlega sólarhringur er liðinn síðan Hamas-samtökin hófu árás sína á Ísrael. Samtökin segja að harðir bardagar haldi áfram.

Að minnsta kosti 250 Ísraelar eru látnir og að sögn ísraelska sendiráðsins í Bandaríkjunum hefur allt að hundrað manns verið rænt af Hamas-liðum.

Benjamin Netanyahu, forsætisráðherra Ísraels, segist búast við löngu og erfiðu stríði.

„Við erum á leið í langt og erfitt stríð sem var þvingað upp á okkur með mannskæðri árás Hamas,“ skrifaði forsætisráðherrann á X snemma í morgun.

Íbúar ganga fram hjá byggingu sem hrundi í loftárás Ísraelshers …
Íbúar ganga fram hjá byggingu sem hrundi í loftárás Ísraelshers snemma í morgun. AFP/Mahmud Hams

Íbúar leita skjóls á sjúkrahúsum

Hezbollah-samtökin í Líbanon, sem studd eru af Írönum, hafa blandað sér í átökin og segjast í morgun hafa skotið fjölda flugskeyta að stöðvum Ísraela á Shebaa Farms-svæðinu, sem er umdeilt svæði á mörkum Líbanons og Gólanhæða.

Samtökin segja árásirnar hafa verið gerðar í stuðningi við Hamas. Ísraelsher kveðst á móti hafa gert loftárásir á innviði sem tilheyra Hezbollah-samtökunum.

Ísraelsher hóf gagnárásir á Gasasvæðið í gær. Heilbrigðisráðuneyti Palestínu á Gasa segir 256 Palestínumenn hafa farist í loftárásum Ísraelshers síðasta sólarhringinn, þar af 20 börn. Þá séu 1.788 manns særðir.

Breska ríkisútvarpið segir litlar upplýsingar hafa borist frá svæðinu en ljósmyndir og myndskeið sýni bænastaði í rústum og íbúa leita skjóls á sjúkrahúsum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert