Fleiri en 500 Ísraelar hafa verið drepnir frá því að árásir Hamas-samtakanna á Ísrael hófust í gær, að því er ísraelskir fjölmiðlar greina frá. Þá hafa gagnárásir Ísraela á Gasa orðið minnst 313 manns að bana auk þess sem 2.000 eru særðir.
Ísraelsher hyggst bjarga ísraelskum gíslum, en Hamas-liðar hafa tekið mikinn fjölda almennra borgara og hermanna í gíslingu, eða um hundrað manns.
Herinn hyggst einnig rýma byggðir í grennd við Gasa á næsta sólarhring.
Frans páfi hvatti í dag til friðar í Ísrael og Palestínu og sagði hryðjuverk og stríð ekki leiða til lausnar. Hann kallaði eftir því að árásirnar myndu hætta í Ísrael en minntist hvorki á Gasasvæðið né Hamas-samtökin.
„Stríð er ósigur. Allt stríð er ósigur. Við skulum biðja fyrir friði í Ísrael og Palestínu,“ sagði Frans páfi á Péturstorgi í Vatíkaninu í dag.
„Ég fylgist með því sem er að gerast í Ísrael með ótta og sársauka,“ sagði hann og lýsti yfir samstöðu með fjölskyldum fórnarlambanna.
„Hryðjuverk og stríð leiða ekki til lausnar, heldur aðeins til dauða og þjáningar fjölda saklauss fólks.“