Martröð við Miðjarðarhaf

Vígamenn Hamas-hryðjuverkasamtakanna skutu flugskeytum frá Gasa yfir til Ísraels og …
Vígamenn Hamas-hryðjuverkasamtakanna skutu flugskeytum frá Gasa yfir til Ísraels og loftvarnakerfi Ísraelshers snýst til varnar. AFP/Eyad Baba

„Maður hefur séð ýmislegt í gegnum árin en þetta er það hræðilegasta sem ég hef upplifað. Bara algjör martröð,“ segir Iris Hanna Bigi-Levi, íslensk kona sem hefur búið í Ísrael með fjölskyldu sinni síðustu 30 árin, í samtali við Morgunblaðið eftir árásir Hamas-hryðjuverkasamtakanna á Ísrael um helgina.

Ófriðarbál hefur kviknað enn einu sinni fyrir botni Miðjarðarhafs og eru átökin nú þau umfangsmestu í áraraðir. Útlit er fyrir stríðsátök á milli Ísraels og Hamas næstu vikurnar, eða jafnvel mánuði, auk þess sem Hezbollah-hryðjuverkasamtökin hafa blandað sér í slaginn gegn Ísrael. Íbúar í Ísrael og erlendir gestir vöknuðu snemma á laugardagsmorguninn við almannavarnaflautur og sprengingar. Hamas skaut þúsundum flugskeyta frá Gasasvæðinu á borgir í Ísrael en gerði einnig innrás á nokkrum stöðum samtímis auk aðgerða á sjó.

Fjöldi Íslendinga í Ísrael

Margir íslenskir ferðamenn voru staddir í Ísrael þegar árásirnar hófust. Hópur Íslendinga sem áttu bókað flug frá Ísrael á laugardaginn komst þá heim til Íslands áður en lokað var fyrir hefðbundið farþegaflug. En annar hópur Íslendinga var nýkominn til Ísraels.

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra tók þá ákvörðun í gær að senda farþegaflugvél á vegum íslenska ríkisins til Ísraels en þar eru um 120 Íslendingar sem á að flytja heim með vélinni. Þórdís Kolbrún segir það frumskyldu stjórnvalda að gera hvað sem er til að passa upp á íslenska ríkisborgara. Því sé nauðsynlegt að senda farþegaflugvél til Ísraels við þessar aðstæður.

„Það greip um sig mikil gleði þegar tilkynnt var að við færum í loftið klukkan 9 í fyrramálið,“ segir Sigurður Kolbeinsson, fararstjóri hjá Kólumbus ferðaskrifstofu, en hann er með 85 manna hóp í Ísrael.

„Skelfilegar árásir“

Árásir Hamas virðast hafa komið Ísraelsmönnum í opna skjöldu. Hafa margir erlendir sérfræðingar lýst undrun sinni vegna þessa. Árásirnar séu það viðamiklar að þær hafi þurft langan undirbúning en í gegnum áratugina eru mörg dæmi um að ísraelska leyniþjónustan Mossad hafi komist á snoðir um áform um árásir á Ísrael. Er þetta vísbending um að árásirnar hafi verið þaulskipulagðar og að hæstráðendur hjá Hamas hafa haldið spilunum þétt að sér.

Þegar þetta er skrifað virðist sem yfir 700 Ísraelar hafi látið lífið í árásum Hamas og um 400 Palestínumenn í árásum Ísraela en nákvæmar tölur liggja ekki fyrir að svo stöddu. Þeir sem særst hafa í átökunum um helgina skipta þúsundum. Hinir látnu eru frá nokkrum ríkjum og ríkisborgarar enn fleiri landa bætast við á meðal þeirra sem saknað er eftir árásirnar.

„Þetta er auðvitað algjörlega skelfilegt, þessar skelfilegu árásir sem Hamas gerði í gærmorgun. Við sjáum það að á þessum eina sólarhring hefur þetta stigmagnast mjög hratt. Bæði mikið mannfall á einum degi og lítur út fyrir að þetta geti stigmagnast með aðkomu Hezbollah í Líbanon,“ segir Katrín Jakobsdóttir.

„Ísland fordæmir hryðjuverkaaðgerðir Hamas sem hófust í nótt og standa enn yfir. Ísrael hefur rétt til þess að verja sig gegn slíkum árásum, vitanlega í samræmi við þau alþjóðalög sem um það gilda. Það er rík ástæða til að hafa áhyggjur af þessu ástandi,“ segir Þórdís Kolbrún utanríkisráðherra.

Árásum svarað af hörku

Ýmsir sérfræðingar og álitsgjafar telja að innrás Ísraelshers í Gasa sé yfirvofandi. Byggðir Ísraelsmanna nærri Gasa séu nú rýmdar og Benjamín Netanjahú, forsætisráðherra Ísraels, fór ekki leynt með að Ísraelar myndu svara fyrir sig af mikilli hörku. Þeir hófu gagnsókn á laugardaginn og hafa til að mynda gert loftárásir á Gasa. Auk þess hafa Bandaríkin sent herskipið USS Gerald Ford á svæðið en það mun vera stærsta herskip heims. Joe Biden Bandaríkjaforseti sagði í ávarpi um helgina að Bandaríkin myndu ávallt styðja Ísrael.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert