„Þeir slátruðu fólki með köldu blóði“

Skjáskot úr myndbandi sem sýnir vopnaðan Hamas-liða leiða mann áfram …
Skjáskot úr myndbandi sem sýnir vopnaðan Hamas-liða leiða mann áfram á tónlistarhátíðinni. AFP

Talsmaður mannréttindasamtakanna Zaka aðstoðaði við að finna lík þeirra sem voru drepnir af Hamas-liðum á tónlistarhátíð í suðurhluta Ísraels um helgina.

Í samtali við AFP-fréttastofuna lýsir hann upplifun sinni en lík allt að 250 ungra Ísraela hafa fundist.

„Þeir fóru bara um og skutu fólk sem var í bílunum sínum,“ sagði talsmaðurinn, Moti Bukjin, en stór hópur gesta reyndi að flýja svæðið á ökutækjum sínum.

„Á svæðinu þar sem partíið var haldið og í partíinu sjálfu“ sagði hann að hefðu fundist „um 200 til 250 lík“, byggt á því hversu margir flutningabílar voru notaðir til að flytja líkin á brott.

Skjáskot úr myndbandi sem sýnir bílana í vegkantinum að lokinni …
Skjáskot úr myndbandi sem sýnir bílana í vegkantinum að lokinni skotárásinni. AFP

Þetta þýðir að meira en þriðjungur þeirra sem voru drepnir í árás Hamas-liða féllu í valinn á tónlistarhátíðinni. Ísraelsher segir að yfir 700 manns hafi í heildina verið drepnir af Hamas.
Í loftárásum Ísraela hafa að minnsta kosti 560 manns fallið á Gasasvæðinu, að sögn ísraelska heilbrigðisráðuneytisins.

Hélt að hámarkinu væri náð

Bukjin segist hafa verið sjálfboðaliði hjá Zaka í 28 ár og „ég hélt að hámarkinu hjá mér hefði verið náð“ eftir mannskæðan troðning sem varð í Meron á trúarhátíð fyrir tveimur árum.
„Ég hélt að það væri heimsendir“ en „það hefur komið í ljós að hlutirnir geta verið mun, mun verri,“ sagði hann í símaviðtali við blaðamann AFP. „Þeir slátruðu fólki með köldu blóði á óskiljanlegan hátt,“ bætti hann við um það sem hann sá á svæðinu þar sem tónlistarhátíðin var haldin.

Vopnaður Hamas-liði á tónlistarhátíðinni.
Vopnaður Hamas-liði á tónlistarhátíðinni. AFP

Á vegi skammt frá „voru bílar í vegkantinum, bíll sem hafði oltið, bíll á hliðinni – í hverjum bíl voru tvö eða þrjú lík eða bara lík einnar manneskju sem hafði verið skotin til bana,“ lýsti hann.

Bujkin nefndi einnig að öll líkin sem hann kom að á svæðinu hefðu verið af fólki sem hefði verið skotið til bana og luku árásarmennirnir verkinu með byssukúlu í höfuð þeirra eða með því að kveikja í bílum þeirra.

AFP

Gengu úr skugga um að fólkið væri dáið

„Það sem er sjokkerandi er að þeir gengu úr skugga um að fólkið sem þeir skutu væri dáið. Þeir höfðu svo mikinn tíma þangað til öryggissveitirnar komu á staðinn. Þeir brenndu suma bílana með fólkinu þar inni,“ greindi hann frá. „Á sumum þeirra sáum við skotsár á höfði, byssukúlu í höfðinu, byssukúlu í hökunni. Þeir voru ekki að skjóta byssukúlum á handahófskenndan hátt í von um að þeir myndu hitta.“

Hátíðargestir sem reyndu að flýja á tveimur jafnfljótum voru á meðal þeirra sem létust. „Sum líkanna voru í skurðum. Þau voru skotin er þau reyndu að flýja og duttu ofan í skurðina sem voru við veginn,“ sagði hann.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert