Joe Biden, forseti Bandaríkjanna, var ómyrkur í máli þegar hann flutti ávarp í Hvíta húsinu í dag. Sagði hann árásir Hamas-samtakanna vera hreina illsku.
„Meira en þúsund manns var slátrað í Ísrael. Foreldrum var slátrað þegar þeir reyndu að bjarga lífi barna sinna með líkömum sínum,“ sagði Biden í ávarpi sínu.
Biden flutti ávarpið klukkustund seinna en áætlað var. Tafðist hann vegna símtals, en hann ræddi við Benjamín Netanjahú, forsætisráðherra Ísraels.
„Heilu fjölskyldurnar voru myrtar. Ungt fólk stráfellt á tónlistarhátíð sem snerist um frið. Fagnaði frið,“ sagði Biden.
Hann bætti við: „Ungbörn í fangi mæðra sinna, ömmur og afar í hjólastólum, fólk sem lifði helförina af,“ sagði Biden.
Biden lýsti Hamas-samtökunum sem blóðþyrstum hryðjuverkasamtökum.
„Leyfið mér að segja það aftur við alla, hvaða ríki, hvaða samtök sem er, sem eru að hugsa um að nýta sér þessar aðstæður: Ekki. Ekki. Hjörtu okkar kunna að vera brostin, en viljastyrkur okkar er skýr.“
Antony Blinken, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, mun á næstu dögum fara til Ísraels.
Að minnsta kosti fjórtán Bandaríkjamenn hafa látist í átökunum síðan á laugardag. Hvíta húsið segir nú að minnsta kosti 20 Bandaríkjamanna sé enn saknað á svæðinu.