Saksóknarar í Bandaríkjunum hafa birt nýjar ákærur yfir þingmanni Repúblikanaflokksins, George Santos, meðal annars fyrir auðkennisþjófnað og að hafa logið að kjörstjórn.
Hann á að hafa villt á sér heimildir og notað kreditkort fólks í eigin baklandi án þeirra vitneskju eða leyfis.
Santos var ákærður fyrir fjársvik og peningaþvætti í vor en tíu nýir ákæruliðir voru birtir honum í gær fyrir auðkennisþjófnað, skjalafals, fjársvik og að veita kjörstjórn rangan vitnisburð auk annarra brota.
Hann er meðal annars sagður hafa borgað skuldir og keypt merkjavörur í eigin þágu gegnum kreditkort fólks sem lagði honum til fé í kosningabaráttu sína og þá er honum gefið að sök að hafa svikið töluverðar fjárhæðir frá stuðningsmönnum sínum í gegnum frjáls félagasamtök sem aldrei voru til.
Santos er sömuleiðis ákærður fyrir að hafa logið að leiðtogum Repúblikanaflokksins um fjárhæð styrkja og lána sem nemur tugum milljóna íslenskra króna til að ýkja velgengni sína og skapa sér betri stöðu til að þiggja raunverulega styrki.
Þá á hann að hafa þegið atvinnuleysisbætur sem hann átti ekki rétt á í heimsfaraldri kórónaveirunnar áður en hann var kosinn á þing.
Hann verður leiddur fyrir dómara 27. október til að svara ákærunum.
Gjaldkeri kosningasjóðs þingmannsins játaði í síðustu viku fyrir dómstólum að hafa átt þátt í skipulagningu fjársvika gegn bandaríska ríkinu. Sagðist hún hafa átt þátt í að færa til bókar lán upp á tæplega sjötíu milljónir íslenskra króna ásamt samverkamanni sínum sem hún þó nefndi ekki á nafn.
Santos er sakaður um að hafa falsað starfsferilsskrá sína í aðdraganda þingkosninganna í nóvember. Hann hefur ekki gefið út yfirlýsingu vegna málsins en sagðist ekki yfirgefa þingsæti sitt og væri þegar farinn að huga að endurkjöri á næsta ári. Hann hefur skellt allri sökinni á gjaldkera kosningasjóðsins.