Þýska ríkisstofnunin gegn mismunun (FADA) sagði fyrr í dag að til stæði að yfirgefa samfélagsmiðilinn X (áður Twitter), sökum „gífurlegrar aukningar“ hatursorðræðu.
Hatrömm skilaboð og upplýsingafölsun hafa „sérstaklega sótt í sig veðrið“ síðan Elon Musk tók við miðlinum á seinasta ári, sagði FADA á X.
„Að okkar mati er X ekki lengur viðunandi vettvangur. Gífurleg aukning er á fjandskap í garð trans og hinsegin fólks, en einnig má sjá aukningu á kynþáttafordómum, kvenhatri, gyðingahatri og öðru af því tagi,“ segir enn fremur í færslu FADA.
Stofnunin hvatti aðrar stofnanir að spyrja sig hvort það væri réttlætanlegt að halda áfram að nota miðilinn.
Eftir yfirtöku Musks á Twitter á seinasta ári hefur verið opnað á áður lokaða reikninga, ber þar að nefna fyrrum forseta Bandaríkjanna, Donald Trump.
Í kjölfar átakanna á Gasa biðlaði tæknimálaráðherra Þýskalands til Musks að „eyða reikningum sem kalla eftir eyðileggingu Ísraels og ofbeldi gagnvart gyðingum“.
Thierry Breton sem á sæti í framkvæmdarstjórn Evrópusambandsins varaði Musk við því að X væri að dreifa „ólöglegu efni og upplýsingafölsun“.
Þessu svaraði Musk og bað Breton að „telja upp þessi meintu brot“.