Benjamín Netanjahú, forsætisráðherra Ísrael, segist genginn til liðs við leiðtoga eins stjórnarandstöðuflokks í landinu til þess að mynda „neyðarþjóðstjórn“ á meðan á stríðinu við Hamas-samtökin stendur yfir.
Þetta tilkynnti forsætisráðherrann fyrr í dag og gengur hann því til liðs við nafna sinn, Benjamín Gantz, sem er formaður miðjuflokksins Bláhvíta bandalagið og fyrrverandi varnarmálaráðherra.
„Í kjölfar fundar … sem haldinn var í dag samþykktu þeir báðir að stofna neyðarþjóðstjórn og stríðsráð,“ segir í yfirlýsingu frá formönnunum tveimur.
Aðeins þrír sitja í stríðsráðinu eins og stendur – Netanjahú, Gantz og Jóav Gallant varnarmálaráðherra. Vinstrimaðurinn Jaír Lapíd, leiðtogi stjórnarandstöðunnar, hefur ekki gengið til liðs við Gantz og Netanjahú, en í yfirlýsingunni segir að sæti sé „frátekið“ fyrir hann í stríðsráðinu.
Gadí Eisenkot, fyrrverandi herforingi í ísraelska hernum og þingmaður, og Ron Dermer ráðherra verða áheyrnarfulltrúar í ráðinu.
„Á meðan stríðið stendur yfir munu engin frumvörp eða tillögur frá þjóðstjórn sem tengjast ekki stríðinu vera lögð fram,“ segir í tilkynningunni.