Starfsmaður héraðsdóms lak upplýsingum

Héraðsdómur Attunda í Sollentuna. Kona er þar starfar var handtekin …
Héraðsdómur Attunda í Sollentuna. Kona er þar starfar var handtekin vegna gruns um upplýsingaleka. Ljósmynd/Domstol.se

Kona, sem starfar við Héraðsdóm Attunda í Sollentuna í Svíþjóð, var handtekin í september vegna gruns um að hún hefði veitt Turebergs-glæpaklíkunni svokölluðu upplýsingar um að til stæði að hlera síma hjá félögum þar innanbúðar.

Frá þessu greinir sænska ríkisútvarpið SVT og vitnar í Per Nichols saksóknara sem kveður brot konunnar „háskaleg kerfinu“ (s. av systemhotande karaktär).

Skömmu eftir að héraðsdómari kvað upp úrskurð um að lögreglu væri heimilt að hlera síma klíkufélaga bárust þeim hinum sömu skilaboð gegnum samskiptamiðil sem lögregla hafði þegar eftirlit með og var konan handtekin í kjölfarið.

Uppljóstrarar innan lögreglunnar

Segir SVT nefnt tilfelli sýna það sem verið hefur að koma í ljós hin síðustu ár, það er að segja að aðilar í undirheimunum notfæri sér starfsfólk sænska réttarvörslukerfisins og löggæslu til að komast yfir upplýsingar sem leynd hvílir yfir.

Ekki er langt um liðið síðan yfirmaður sænsku leyniþjónustunnar, Jale Poljarevius, benti á það í fréttaskýringaþættinun 30 Minuter á SVT að líklegt þætti að innan sænsku lögreglunnar starfaði fólk sem sigldi undir fölsku flaggi og veitti afbrotamönnum upplýsingar.

Anders Thornberg ríkislögreglustjóri hefur einnig rætt áhyggjur sínar af tilraunum afbrotamanna til að lauma sínu fólki inn á vinnustaði þar sem komast má yfir upplýsingar sem gagnast þeirri starfsemi sem illa þolir dagsljósið.

Í viðkvæmri stöðu gagnvart einhverjum

„Hættan á slíkum tilraunum er fyrir hendi. Nokkur tilfelli innan lögreglunnar koma fyrir hvert ár,“ segir Thornberg við SVT og segir aðspurður að á þeim vettvangi leiki einnig grunur á að lögreglumenn selji afbrotamönnum upplýsingar en að auki geti verið um að ræða fólk sem á einhvern hátt sé í viðkvæmri stöðu eða háð einhverjum á þann hátt að færa megi í nyt.

Í síðustu ársskýrslu sænsku fangelsismálastofnunarinnar var því einnig slegið föstu að þar gangi ýmsum misgott til ætlunar og upplýsingar gangi gjarnan frá starfsfólki til fanga eða annarra. Hafa þrír dómar fallið í slíkum málum hin síðustu ár.

SVT

SVTII (fangaverðir smygla upplýsingum)

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert