Ástandið verður fljótt óviðráðanlegt

Mörg börn hafa látist eða slasast í stríði Hamas-samtakanna og …
Mörg börn hafa látist eða slasast í stríði Hamas-samtakanna og Ísraels. AFP

Alþjóða Rauði krossinn segist vera í sambandi við Hamas-samtökin og Ísraelsmenn til að reyna að fá þá gísla lausa sem voru teknir á Gaza.

Talið er að í það minnsta 150 manns hafi verið teknir sem gíslar eftir árás Hamas-samtakanna á Ísrael á laugardaginn og í þeim hópi eru óbreyttir borgarar, börn, konur og hermenn.

Rauði krossinn telur einnig að mannúðarástandið á Gaza verði mjög fljótt óviðráðanlegt verði ekki hægt að koma nauðsynjum til Gaza en í kjölfar árásar Hamas-samtakanna hafa íbúar á Gaza-svæðinu ekki haft aðgang að mat, vatni né rafmagni.

Gíslataka er bönnuð

Sem hlutlaus milliliður erum við reiðubúin til að fara í mannúðarheimsóknir, auðvelda samskipti milli gísla og fjölskyldumeðlima og til að auðvelda hvers kyns lausn,“ sagði Fabrizio Carboni, svæðisstjóri Alþjóða Rauða krossins í Austurlöndum nær og Miðausturlöndum, á fréttamannafundi í dag.

Carboni sagði að Alþjóða Rauði krossinn sé í daglegu sambandi við Hamas. „Gíslataka er bönnuð samkvæmt mannúðarlögum og hverjum sem er í haldi verður að sleppa tafarlaust. Við höfum kallað á alla aðila sem hafa áhrif á þetta mál, sérstaklega Hamas, til að koma fram við fólk á mannúðalegan hátt, leyfa því að hafa samband við fjölskyldur sínar og upplýsa þær um stöðu sína,“ sagði Carboni ennfremur

Líkin hafa hrannast upp eftir árásir Ísraelsmanna á Gaza.
Líkin hafa hrannast upp eftir árásir Ísraelsmanna á Gaza. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert