Tveir fluttir á spítala eftir skotárás í gærkvöld

Lögregla að störfum í suðurhluta Stokkhólms.
Lögregla að störfum í suðurhluta Stokkhólms. AFP/Pontus Lundahl

Tveir urðu fyrir byssuskoti í skotárás í íbúðahverfi í Västberga í suðurhluta Stokkhólms seint í gærkvöld. Fólkið var flutt á spítala en ekki er vitað um alvarleika meiðsla þess.

Enginn hefur verið handtekinn og er málið í rannsókn lögreglu.

Daniel Wikdahl, talsmaður lögreglu, segir í samtali við sænska ríkisútvarpið, SVT, að ekki sé hægt að svara því hvort árásin tengist óöldinni sem geisað hefur í undirheimunum í Svíþjóð.

Fyrr í gærkvöld var lögreglu gert viðvart um að skotum hafi verið hleypt af á dyr íbúðarhúss í Bredäng og snemma í morgun voru viðbragðsaðilar sendir á vettvang þegar eldur braust út í einbýlishúsi í Huddinge.

Greiðlega gekk að slökkva eldinn en óþekktur hlutur fannst á vettvangi svo kalla þurfti út sprengjusveit og rýma nokkur hús nærri vettvanginum.

Sprengjusveit skoðaði hlutinn og gekk úr skugga um að hann væri ekki hættulegur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert