Almennir borgarar notaðir sem mannlegir skildir

Annalena Baerbock, utanríkisráðherra Þýskalands.
Annalena Baerbock, utanríkisráðherra Þýskalands. AFP/Tobias Schwarz

Annalena Baerbock, utanríkisráðherra Þýskalands, segir vígamenn Hamas nota almenna borgara sem mannlega skildi í átökum sínum við Ísraelsmenn. Þetta var haft eftir henni á fjölmiðlafundi í Ísrael þar sem hún kom fram ásamt Eli Coen, utanríkisráðherra Ísrael.

„Hamas er búið að taka alla íbúa á Gasasvæðinu í gíslingu,“ segir Baerbock.

Vísar hún til þess að göng, vopnageymslur og stjórnstöðvar samtakanna eru vísvitandi staðsettar meðal íbúa. Í háskólabyggingum, stórmörkuðum, fjölbýlishúsum og jafnvel spítölum að sögn Baerbock.

Mikil eyðilegging blasir við á Gasa-svæðinu eftir loftárásir Ísraela.
Mikil eyðilegging blasir við á Gasa-svæðinu eftir loftárásir Ísraela. AFP

Rúmlega 1300 Ísraelsmenn hafa fallið frá því Hamas ruddist inn á landsvæði Ísrael og hófu loftárásir á laugardag. Aukins ótta gætir um líf almennra borgara eftir að Ísraelar söfnuðu saman liði við landamæri Gasa og hyggja á að fara inn í norðurhluta svæðisins með her sinn. Þar búa 1,1 milljón manna.

Þjóðverjar í samvinnu við Sameinuðu þjóðirnar og Egypta, sem eiga landamæri að Gasa, hafa leitað leiða til þess að tryggja öryggi almennra borgara í hildarleiknum sem er framundan.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert