Fordæmir viðbjóðslega stigmögnun gyðingahaturs

Sunak ásamt Ulf Kristersson, forsætisráðherra Svíþjóðar.
Sunak ásamt Ulf Kristersson, forsætisráðherra Svíþjóðar. AFP

Rishi Sunak, forsætisráðherra Bretlands, fordæmdi í dag það sem hann kallar viðbjóðslega stigmögnun gyðingahaturs í Bretlandi dagana eftir blóðuga árás Hamas-samtakanna á Ísrael.

„Það hefur verið hreint út sagt ógeðsleg stigmögnun gyðingahaturs á undanförnum dögum,“ sagði Sunak þegar hann ræddi við fréttamenn á leiðtogafundi í Gotlandi í Svíþjóð í dag.

Laurence Taylor, einn yfirmanna Lundúnalögreglunnar, segir að atvikum þar sem grunur er um gyðingahatur hafi fjölgað til muna frá septemberlokum til dagsins í dag. Þau telji 180 en voru 30 á sama tímabili í fyrra.

Hvatti Ísraela til að vernda óbreytta borgara

„Við höfum veitt auknu fé til að tryggja að gyðingastofnanir, hvort sem það eru samkunduhús eða skólar, hafi alla þá vernd sem þær þurfa og lögreglan fái allan þann stuðning sem hún þarf  til að tryggja að götur okkar séu öruggar fyrir fólk frá öllum samfélögum.

Við munum alls ekki þola að fólk hvetji til haturs, ofbeldis eða kynþáttafordóma. Ógnandi hegðun verður ekki liðin,“ sagði breski forsætisráðherrann.

Sunak hvatti Ísraela einnig til að gera allar mögulegar varúðarráðstafanir til að vernda óbreytta borgara í viðbrögðum sínum við árás Hamas-samtakanna. 1.300 létust í árásinni og mörg þúsund manns eru særðir. Sunak sagði enn fremur að Ísrael hefði allan rétt á að verja sig.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert