Atli Steinn Guðmundsson
Sextán ára gamall piltur var handtekinn í leigubifreið í Tullinge, hverfi í Botkyrka, suður af sænsku höfuðborginni Stokkhólmi, skömmu eftir að tvær konur voru skotnar til bana í einbýlishúsi þar á öðrum tímanum í nótt að sænskum tíma.
Handtók lögregla leigubílstjórann einnig en í bifreiðinni fannst sjálfvirkt skotvopn eftir því sem sænska ríkisútvarpið SVT greinir frá. Lágu hinir handteknu í fyrstu báðir undir grun um manndráp en lögregla féll síðar frá grunsemdum sínum í garð bílstjórans og var honum sleppt úr haldi í dag.
Konurnar myrtu voru á þrítugs- og sjötugsaldri og var fjölda skota hleypt af inni í húsinu að sögn vitna sem sænskir fjölmiðlar hafa rætt við. Sextán ára pilturinn mun hafa losnað af svokölluðu HVB-heimili í gær, úrræði fyrir börn og unglinga sem lent hafa á refilstigu, svo sem vegna fíkniefnaneyslu eða annarrar skaðlegrar hegðunar.
Hefur hann um árabil verið viðriðinn undirheimana samkvæmt gögnum frá stjórnsýsludómstól og er grunaður um á þriðja tug afbrota í málum sem ekki hefur verið hægt að dæma í þar sem hann var ósakhæfur, yngri en fimmtán ára, þegar hann framdi hin meintu brot sem meðal annars eru rán, ofbeldi og hótanir í tengslum við meðferð refsimáls. Eftir að hann varð sakhæfur hlaut hann dóm fyrir minni háttar fíkniefnabrot, það var nú í ár.
Eftir því sem SVT kemst næst er þekktur sænskur listamaður skráður til heimilis þar sem skotárásin átti sér stað en árásin mun hafa beinst að ættingja manns í undirheimunum.