Maður af téténskum uppruna stakk kennara til bana og særði tvo til viðbótar í skóla í bænum Arras í norðausturhluta Frakklands í morgun.
Málið er rannsakað sem mögulegt hryðjuverk.
Emmanuel Macron Frakklandsforseti fór á vettvang glæpsins í morgun og ræddi við lögregluna.
Maðurinn sem framdi verknaðinn er sagður vera tvítugur að aldri. AFP-fréttaveitan hefur eftir heimildamanni sínum að hann hafi þegar verið á lista lögreglunnar sökum þess að hætta var talin stafa af honum.
Frakkland hefur gripið til aukinna öryggisráðstafana innanlands vegna árásar Hamas á Ísrael um síðustu helgi, þar sem mikill fjöldi gyðinga og múslima býr í landinu.
Rannsókn málsins miðar áfram en miðað við fyrstu upplýsingar er maðurinn sagður hafa öskrað „Allahu akbar“ eða „Guð er máttugastur“.
Þeir sem særðust voru öryggisvörður sem berst nú fyrir lífi sínu og annar kennari sem er á batavegi. Engin nemandi særðist í árásinni.
Þrjú ár eru liðin síðan kennari var afhöfðaður í úthverfi Parísar af manni af téténskum uppruna.