Tvær konur voru skotnar til bana í skotárás í einbýlishúsi í Tullinge í Stokkhólmi Svíþjóð í gærkvöld. Tveir hafa verið handteknir grunaðir um verknaðinn.
Nokkrum skotum var hleypt af í húsinu rétt fyrir klukkan hálftvö að staðartíma í nótt. Samkvæmt upplýsingum frá lögreglu var skotárásinni beint að skyldmennum einstaklings sem tengdur er glæpaklíkunni Zero. Lögregla segir íbúa hússins þó ekki vera glæpamenn.
Konurnar voru fluttar á brott með skotsár en lögreglan staðfesti í morgun að hvorug þeirra hafi komist lífs af. Fjórir aðrir voru í húsinu þar á meðal þrjú börn sem slösuðust ekki í árásinni.
„Já, það voru börn á vettvangi. Þau eru ekki meidd og hafa verið flutt á brott. Við höfum séð til þess að það verði séð um þau,“ sagði Daniel Wikdahl, talsmaður lögreglu við sænska ríkisútvarpið, SVT.
Mikill viðbúnaður er á vettvangi og í nágrenni hans.
„Við höfum hafið rannsókn og erum að tryggja vettvanginn, vernda sönnunargögn og tala við vitni,“ sagði Wikdahl.
Það sem er meðal annars til skoðunar er hvort árásin tengist óöldinni sem ríkt hefur í landinu undanfarið vegna uppgjörs í undirheimunum.
„Það er erfitt að segja til um hvort svo sé en þessir alvarlegu glæpir sem við höfum horft upp á undanfarið tengjast flestir á einhvern hátt.“
Um klukkan fimm í morgun að staðartíma var lögregla kölluð til að íbúðarhúsi í Enskede en þar hafði verið skotið nokkrum sinnum á íbúð í húsinu. Fimm voru í íbúðinni sem allir eru ómeiddir að sögn Wikdahl.