Íran hótar Ísrael og segir fingurinn á gikknum

Eldhnöttur lýsir upp byggingar á Gasasvæðinu í húminu að kvöldi …
Eldhnöttur lýsir upp byggingar á Gasasvæðinu í húminu að kvöldi laugardags 14. október. AFP

Stjórnvöld Írans hafa sent Ísraelum skilaboð, um að þau vilji ekki að átök Ísraels og Hamas stigmagnist frekar. Þau muni aftur á móti þurfa að skerast í leikinn ef Ísrael heldur aðgerðum sínum áfram á Gasasvæðinu.

Þetta hefur bandaríski miðillinn Axios eftir tveimur heimildarmönnum innan utanríkisþjónustunnar, sem kunnugir eru málinu.

Að sögn þeirra átti íranski utanríkisráðherrann, Hossein Amir-Abdollahian, fund með erindreka Sameinuðu þjóðanna í Mið-Austurlöndum, Tor Wennesland, í Beirút í dag.

Loftvarnakerfi Ísraels skýtur niður eldflaugar sem skotið var frá Gasasvæðinu.
Loftvarnakerfi Ísraels skýtur niður eldflaugar sem skotið var frá Gasasvæðinu. AFP

Sagði Íran vilja hjálpa en hefði sín takmörk

Í umfjöllun miðilsins er Wennesland sagður hafa hvatt Amir-Abdollahian til að aðstoða við að forða því að átökin breiðist frekar út um heimshlutann.

Mun utanríkisráðherrann hafa svarað því til að Íran vilji ekki að styrjöldin breytist í stríð í heimshlutanum og að Íran vilji hjálpa til við að losa þá borgara úr haldi sem vígamenn Hamas tóku sem gísla fyrir viku.

En hann bætti við að Íran hefði sín takmörk. Ef hernaðaraðgerð Ísraelshers héldi áfram – og sérstaklega ef Ísrael stendur við loforð sitt um innrás fótgönguliða íGasasvæðið – þá muni Íran þurfa að bregðast við.

Hossein Amir-Abdollahian, utanríkisráðherra Írans, á blaðamannafundi í Beirút í dag.
Hossein Amir-Abdollahian, utanríkisráðherra Írans, á blaðamannafundi í Beirút í dag. AFP

Yfirvofandi hætta á stærra stríði

Hótunin, sem var borin áfram til Ísraels í gegnum boðleiðir Sameinuðu þjóðanna, felur í sér yfirvofandi hættu á stríði í heimshlutanum. Kemur hún í kjölfar fyrri viðvarana íranska utanríkisráðherrans.

Hann mun einnig hafa tjáð erindrekanum í Beirút í dag að Hisbollah, hópur líbanskra vígamanna sem nýtur stuðnings klerkastjórnarinnar í Íran, hefði lagt á ráðin og undirbúið aðgerðir, fari svo að Ísrael linni ekki árásum sínum á Gasa.

„Fingur þeirra er þegar á gikknum, reiðubúinn að hleypa af,“ sagði íranski ráðherrann.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert