Ísrael varpar sprengjum á Sýrland

Frá loftárásum Ísraela á Gasasvæðið í kvöld.
Frá loftárásum Ísraela á Gasasvæðið í kvöld. AFP

Ísrael hóf rétt í þessu loftárásir á Sýrland. Heyra mátti loftvarnaflautur óma um Gólanhæðir nú í kvöld en þær eru sagðar hafa farið í gang eftir árás sem átti upptök handan landamæranna við Sýrland.

„Í kjölfar fyrstu fregna um loftvarnaflautur í byggðarlögunum Avnei eitan og Alma, þá er stórskotalið Ísraelshers nú að skjóta á upptök skotárásarinnar í Sýrlandi,“ segir í stuttri yfirlýsingu frá hernum í Ísrael.

Tvær eldflaugar frá Sýrlandi

Í annarri og síðari yfirlýsingu segir herinn tvær eldflaugar, sem skotið var frá Sýrlandi í átt að ísraelsku yfirráðasvæði, hafa fallið til jarðar á opnu svæði.

Ísraelsher kveðst sömuleiðis vera að athuga mögulega árás úr lofti frá landamærunum við Líbanon.

Efsta viðbúnaðarstig er í gildi við norðurmörk landsins og hefur verið í viku, frá því vígamenn Hamas-samtakanna réðust inn í landið frá Gasasvæðinu og drápu hundruð borgara.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert