Tíu handteknir vegna stunguárásarinnar

Málið er rann­sakað sem mögu­legt hryðju­verk.
Málið er rann­sakað sem mögu­legt hryðju­verk. AFP

Tíu manns hafa verið handteknir í Frakklandi í tengslum við árás þar sem kennari var stunginn til bana. Innanríkisráðherra Frakklands segir árásina sennilega tengjast átökum Ísraela og Hamas.

Hinn tvítugi Mohamed Mogoutsjkov, sem er af téténsk­um upp­runa, stakk kenn­ara til bana og særði tvo til viðbót­ar í Gam­betta-mennta­skól­an­um í Arras í norðaust­ur­hluta lands­ins í gærmorg­un.

Málið er rann­sakað sem mögu­legt hryðju­verk. Mogoutsjkov var eitt sinn nemandi við skólann.

Margir fjölskyldumeðlimir árásarmannsins hafa verið hnepptir í gæsluvarðhald, að sögn lögreglunnar í Frakklandi. Tveir Belarúsar eru einnig í varðhaldi vegna málsins.

Hækkað viðbúnaðarstig

Gerald Darmanin, innanríkisráðherra Frakklands, segir að það sé „sennilega tenging á milli þess sem er að gerast í Miðaustrinu og þessa atviks“ í Arras.

Rann­sókn máls­ins miðar áfram en miðað við fyrstu upp­lýs­ing­ar er maður­inn sagður hafa öskrað „Alla­hu ak­b­ar“ eða „Guð er mátt­ug­ast­ur.

Frönsk stjórn­völd hafa hækkað viðbúnaðarstig í land­inu í kjöl­far árásarinnar. 

Frakk­land hafði þegar þá einnig gripið til auk­inna ör­ygg­is­ráðstaf­ana inn­an­lands vegna árás­ar Ham­as á Ísra­el um síðustu helgi, þar sem mik­ill fjöldi gyðinga og múslima býr í land­inu.

Stjórnvöld hafa einnig bannað mótmæli og samstöðufundi í landinu til stuðnings Palestínu. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert