Tíu manns hafa verið handteknir í Frakklandi í tengslum við árás þar sem kennari var stunginn til bana. Innanríkisráðherra Frakklands segir árásina sennilega tengjast átökum Ísraela og Hamas.
Hinn tvítugi Mohamed Mogoutsjkov, sem er af téténskum uppruna, stakk kennara til bana og særði tvo til viðbótar í Gambetta-menntaskólanum í Arras í norðausturhluta landsins í gærmorgun.
Málið er rannsakað sem mögulegt hryðjuverk. Mogoutsjkov var eitt sinn nemandi við skólann.
Margir fjölskyldumeðlimir árásarmannsins hafa verið hnepptir í gæsluvarðhald, að sögn lögreglunnar í Frakklandi. Tveir Belarúsar eru einnig í varðhaldi vegna málsins.
Gerald Darmanin, innanríkisráðherra Frakklands, segir að það sé „sennilega tenging á milli þess sem er að gerast í Miðaustrinu og þessa atviks“ í Arras.
Rannsókn málsins miðar áfram en miðað við fyrstu upplýsingar er maðurinn sagður hafa öskrað „Allahu akbar“ eða „Guð er máttugastur“.
Frönsk stjórnvöld hafa hækkað viðbúnaðarstig í landinu í kjölfar árásarinnar.
Frakkland hafði þegar þá einnig gripið til aukinna öryggisráðstafana innanlands vegna árásar Hamas á Ísrael um síðustu helgi, þar sem mikill fjöldi gyðinga og múslima býr í landinu.
Stjórnvöld hafa einnig bannað mótmæli og samstöðufundi í landinu til stuðnings Palestínu.