Harma notkun fosfórsprengna í Gasa og Líbanon

Mannréttindavaktin segist hafa staðfest tvö myndskeið þar sem Ísraelsher á …
Mannréttindavaktin segist hafa staðfest tvö myndskeið þar sem Ísraelsher á að hafa beitt hvítum fosfór. Samsett mynd

Mannréttindavaktin harmar notkun Ísraelshers á hvítum fosfór á íbúasvæðum í Gasa og Líbanon sem gæti valdið alvarlegum og langtímaveikindum hjá almennum borgurum. Sé þetta satt hafa Ísraelar gerst brot­leg­ir gagn­vart ákvæðum Genfarsátt­mál­ans frá ár­inu 1949.

Mannréttindavaktin (e. Human Rights Watch) sagði í tilkynningu í vikunni að stofnunin hefði staðfest tvö myndskeið – annað tekið 10. október í Gasa og hitt 11. október í Líbanon. Annað sýni ísraelska herinn beita fosfór við höfn á Gasa og hitt sýni það notað á tveimur stöðum í Líbanon. Vaktin segir slíka notkun á vopninu stofna lífi borgara í hættu.

Ísraelski herinn hefur neitað því að hafa notað slík vopn og segja að ásakanirnar séu „tvímælalaust falskar“.

Eykur hættu gagnvart borgurum

Hvítur fosfór, sem getur ýmist verið notaður sem nokkurs konar reykmerki eða til þess að myrkva fyrir óvininum, en einnig sem vopn, brenn­ur þegar hann kemst í snert­ingu við súr­efni og getur valdið miklum bruna á byggingum, landsvæðum og fólki.

„Notkun á hvítum fosfór á einum þéttbýlasta stað í heimi eykur hættu gagnvart borgurum og brýtur í bága við alþjóðleg mannúðarlög,“ segir í tilkynningunni.

Ekki efna­vopn

Hvít­ur fos­fór, súr­efni, hef­ur oft verið notaður til að merkja skot­mörk óvina og fram­kalla reyk­mökk til að fela hreyf­ingu her­manna.

Hann get­ur einnig verið notaður til að kveikja elda en hann get­ur brunnið í gegn­um bein ef hann kemst í snert­ingu við hold. Hann get­ur drepið, lim­lest og eitrað fyr­ir fórn­ar­lömb­um.

Notk­un fos­fór er bönnuð á svæðum almennra borg­ara sam­kvæmt alþjóðalög­um. 

Hafa notað vopnið áður

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Ísrael notar slíkt vopn. Stjórn­völd í Ísra­el viður­kenndu árið 2010 að tveir hátt­sett­ir for­ingj­ar í her lands­ins hefðu verið ávítt­ir fyr­ir að beita fos­fór­sprengj­um í hernaðinum á Gasa árið áður.

Þá hafa Rússar nokkrum sinnum verið ásakaðir um að beita fosfórsprengjum í stríðinu í Úkraínu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert