Líkur á að stjórnin falli í Póllandi

Donald Tusk er leiðtogi stjórnarandstöðuflokksins sem kemur vel út miðað …
Donald Tusk er leiðtogi stjórnarandstöðuflokksins sem kemur vel út miðað við fyrstu tölur. AFP

Pólska stjórnarandstaðan er líkleg til að ná meirihluta á þingi miðað við útgönguspár í þingkosningum landsins.

Kjörstaðir lokuðu klukkan 19 að íslenskum tíma.

Skoðanakannanir spáðu því að stjórnarflokkurinn Lög og réttlæti yrði sigurstranglegur en hann hefur verið í ríkisstjórn síðustu tvö kjörtímabil.

Meirihlutanum spáð 212 sæti af 460

Borgaravettvangurinn ásamt tveimur minni stjórnarandstöðuflokkum eru samkvæmt útgönguspánum líklegir til að ná meirihluta á þingi.

Miðað við útgönguspár eiga þeir að ná 248 sætum á neðri deild þingsins og núverandi meirihluti fær þá 212 sæti en samtals eru 460 sæti í neðri deildinni. 

„Pólland vann, lýðræðið vann.“

Donald Tusk, leiðtogi Borgaravettvangsins, segir stjórnartíð stjórnarflokksins Laga og réttlætis vera lokið. Þetta segir hann í kjölfar þess að útgönguspár úr þingkosningum Póllands, sem fóru fram í dag, voru birtar.

„Þessu ömurlega tímabili er lokið, valdatíma Laga og réttlætis er lokið,“ segir Tusk í ræðu sinni.

„Pólland vann, lýðræðið vann.“

Örlagaríkar kosningar

Kosningarnar eru taldar örlagaríkar í sambandi við framtíð Póllands og Evrópusambandsins sem og Úkraínu. Forsætisráðherra Póllands, Mateusz Morawiecki, tilkynnti í síðasta mánuði að Pólland myndi hætta sendingu vopna til Úkraínu. 

Donald Tusk, leiðtogi Borgaravettvangs, hafði lýst því að kosningarnar væru þær mikilvægustu síðan árið 1989 eða frá falli kommúnismans. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert