Pólverjar kjósa í þingkosningum í dag sem munu ákvarða framtíð sambands landsins við Evrópusambandið og Úkraínu en þjóðernissinnar í popúlistaflokknum Lög og réttlæti (PiS) eru sigurstranglegastir samkvæmt skoðanakönnunum.
En jafnvel þótt PiS, ráðandi flokkurinn í Póllandi, fengi flest atkvæði myndi flokkurinn líklega eiga í erfiðleikum með að setja saman ríkisstjórn, sem gæti greitt leið Donald Tusk, leiðtoga stjórnarandstöðunnar og fyrrverandi framkvæmdastjóra ESB, að ríkisstjórninni. Pólland er bæði hluti af Atlantshafsbandalaginu (NATO) og ESB.
Kjörstaðir opnuðu klukkan sjö í morgun að staðartíma og loka klukkan sjö í kvöld. Lokaniðurstöður munu þó sennilega ekki liggja fyrir fyrr en eftir miðnætti. Um það bil 29 milljónir manna eru á kjörskrá, þar á meðal hálf milljón erlendis.
Skyldi PiS bera sigur úr býtum í kosningunum er talið að spenna í sambandi landsins við ESB og Úkraínu verði enn þungbærari. Þá eru einnig áhyggjur á lofti um framtíð fjölmiðlafrelsis, réttindi kvenna og réttindi flóttafólks.
„Það er tími fyrir breytingar,“ sagði Ewa Bankowska, 43 ára gömul kona sem vinnur í fjármálageiranum, í samtali við AFP-fréttaveituna eftir að hafa greitt atkvæði í bænum Halinow, rétt utan við höfuðborgina Varsjá.
„Ég hef áhyggjur af hagkerfinu. Ég myndi vilja að við byggðum upp og að ríkisstjórnin hætti að eyða pening sem hún hefur ekki einu sinni.“
En Dorota Zbig, 57 ára hjúkrunarfræðingur, sagði síðustu ár undir ríkisstjórn PiS „hafa verið mjög góð fyrir mig og fjölskylduna mína og ég vona að allir, þar á meðal ungt fólk, kjósi skynsamlega“.
Formaður PiS, Jaroslaw Kaczynski, hefur sagt að hann vilji að Pólland haldi áfram að vera í Evrópusambandinu en að ESB eigi að vera samband „fullvalda ríkja“.
Tusk, leiðtogi stjórnarandstöðunnar og formaður Borgaravettvangsins, hefur sagt að ríkisstjórnin sé að „leiða þjóðina í vitlausa átt“.
„Þetta er mikilvægasti dagur í okkar sögu síðan 1989,“ sagði Tusk en árið sem hann vitnar þar í er árið sem fyrstu frjálsu kosningarnar voru haldnar í landinu frá lokum seinni heimsstyrjaldar.