Þúsundir flýja norðurhluta Gasa

Frá norðurhluta Gasasvæðisins í morgun.
Frá norðurhluta Gasasvæðisins í morgun. AFP/Jack Guez

Þúsundir almennra borgara flýja nú norðurhluta Gasasvæðisins vegna yfirvofandi hernaðaraðgerða Ísraelshers á landi inni á svæðinu. Útgönguleið verður opin í þrjár klukkustundir í dag.

Ísraelsher tilkynnti seint í gærkvöldi að hann hygðist gera árás á landi, lofti og sjó, án þess að gefa upp tímasetningu eða nánari upplýsingar.

Talsmaður hersins hefur nú tilkynnt að almennir borgarar sem enn eru í norðurhluta Gasa verði að halda suður á milli klukkan 10 og 13 að staðartíma í dag. Eiga þeir að nota einn veg sem liggur frá Beit Hanoun í átt að Khan Yunis. Herinn muni ekki miða á veginn á þessum tíma.

Um það bil 1,1 milljón manna búa í norðurhluta Gasa.

Fjölskyldur flýja heimili sín á Gasasvæðinu.
Fjölskyldur flýja heimili sín á Gasasvæðinu. AFP/Mohammed Abed

Yfir 3.600 látnir

Alls hafa yfir 3.600 manns látist í átökum Ísraelshers og Hamas frá því að vígamenn samtakanna réðust inn í Ísrael frá Gasasvæðinu og drápu hundruð borgara. Um 2.300 hafa nú farist í loftárásum Ísraelshers á Gasa og um 1.300 farist í árásum Hamas.

Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin hefur fordæmt fyrirmæli um brottflutning og telur það „dauðadóm“ að neyða sjúklinga á sjúkrahúsum að flytja brott.

Jonathan Conricus, talsmaður Ísraelshers, hélt því fram í morgun að Hamas-samtökin reyndu að koma í veg fyrir að almennir borgarar gætu yfirgefið svæðið.

Frá loftárásum Ísraela á Gasasvæðið í gærkvöld.
Frá loftárásum Ísraela á Gasasvæðið í gærkvöld. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert