Að minnsta kosti 1.400 hafa látist í árásum Hamas á Ísrael að því er þarlend heilbrigðisyfirvöld greina frá. Þá hafa liðsmenn Hamas tekið að minnsta kosti 120 Ísraela í gíslingu síðan árásirnar hófust fyrir tæpri viku síðan.
Yfir 2.450 manns hafa látist í árásum Ísraela á Gasaströndinni og 9.200 eru særðir. Þetta fullyrða Hamas-hryðjuverkasamtökin.
Ef marka má þær tölur hafa fleiri en 3.850 manns týnt lífi í átökunum.
Sprengjum rignir enn á landssvæði Palestínumanna að sögn Hamas-samtakanna.
Varnarmálaráðherra Ísraels, Yoav Gallant, segir ríki sitt hafa engan áhuga á stríðsátökum á norðanverðum landamærum þess við Líbanon. Þetta tilkynnti hann í myndskeiði sem ráðuneyti hans gaf út í dag.
„Ef Hisbollah velja stríð þá verður það þeim dýrkeypt. En ef við náum að halda aftur af slíku þá munum við virða aðstæður og halda ástandinu stöðugu, þótt átök geisi enn.“