Ilham Aliyev, forseti Aserbaídsjan, segir að hann hafi loks uppfyllt „draum Asera“ til áratuga með því að ná völdum í aserska fjallahéraðinu Nagornó-Karabak.
Armenskir aðskilnaðarsinnar hafa verið við völd í Nagornó-Karabak í 30 ár en nú hafa nánast allir Armenar sem bjuggu í héraðinu flúið eftir að Aserar tóku þar við völdum í september.
„Okkur hefur tekist það sem okkur langaði. Við höfum uppfyllt drauminn sem Aserar hafa haft í áratugi,“ sagði forsetinn í ræðu sem hann flutti í stærstu borg héraðsins. „Við tókum aftur landið okkar,“ sagði hann og bætti við að landið hefði „beðið í 20 ár“ eftir augnablikinu.
Mikil átök hafa verið milli aðskilnaðarsinna og asersku hersveitanna í héraðinu að undanförnu en Nagornó-Karabak er landlukt hérað sem alþjóðasamfélagið viðurkennir sem hluta af Aserbaídsjan.
Mikill meirihluti íbúa í Nagornó-Karabak er aftur á móti af armenskum uppruna og hafa stjórnvöld í Jerevan þurft að taka á móti flóði af heimilislausum Armenum, sem hafa þurft að flýja aftur til upprunalandsins.
Samband nágrannaríkjanna Aserbaídsjan og Armeníu hefur vægast sagt verið stormasamt í gegnum tíðina. Ríkin hafa í tvígang farið í stríð hvort gegn öðru vegna Nagornó-Karabak – fyrst snemma á tíunda áratugnum eftir fall Sovétríkjanna og svo aftur árið 2020.
Frá því í desember höfðu Aserar lokað einu leiðinni inn og út af svæðinu frá Armeníu, sem kallast Lachin-gangurinn, en nú hefur gangurinn verið opnaður að nýju og um mánaðamótin höfðu rúmlega 100 þúsund flóttamenn flust til Armeníu, af þeim 120.000 íbúum sem bjuggu í héraðinu.
Stjórnvöld í Armeníu hafa sakað Asera um þjóðernishreinsun – ásökun sem stjórnvöld í Aserbaídsjan neita. Þau hafa hvatt Armena í Nagornó-Karabak til þess að yfirgefa ekki heimili sín, heldur aðlagast lífi í Aserbaídsjan þar sem þau segja réttindi þeirra verða virt.
Friðargæsluliðar Sameinuðu þjóðanna komu til Nagornó-Karabak í byrjun október, í fyrsta skiptið rúmlega 30 ár.