Uppfyllti „drauminn“ um að hrekja Armena á brott

Ilham Aliyev, forseti Aserbaídsjan, krýpur fyrir framan þjóðarfánann. Aserbaídsjanar hafa …
Ilham Aliyev, forseti Aserbaídsjan, krýpur fyrir framan þjóðarfánann. Aserbaídsjanar hafa hrakið nánast alla Armena sem bjuggu í héraðinu á brott til upprunalandsins. AFP

Ilham Aliyev, forseti Aserbaídsjan, segir að hann hafi loks uppfyllt „draum Asera“ til áratuga með því að ná völdum í aserska fjallahéraðinu Nagornó-Kara­bak.

Armensk­ir aðskilnaðarsinn­ar hafa verið við völd í Nagornó-Kara­bak í 30 ár en nú hafa nán­ast all­ir Armen­ar sem bjuggu í héraðinu flúið eft­ir að Aser­ar tóku þar við völd­um í september. 

„Okkur hefur tekist það sem okkur langaði. Við höfum uppfyllt drauminn sem Aserar hafa haft í áratugi,“ sagði forsetinn í ræðu sem hann flutti í stærstu borg héraðsins. „Við tókum aftur landið okkar,“ sagði hann og bætti við að landið hefði „beðið í 20 ár“ eftir augnablikinu.

Flóttamannaflóð í Armeníu

Mik­il átök hafa verið milli aðskilnaðarsinna og asersku her­sveit­anna í héraðinu að und­an­förnu en Nagornó-Kara­bak er landl­ukt hérað sem alþjóðasam­fé­lagið viður­kenn­ir sem hluta af Aser­baíd­sj­an.

Mik­ill meiri­hluti íbúa í Nagornó-Kara­bak er aft­ur á móti af armensk­um upp­runa og hafa stjórn­völd í Jerev­an þurft að taka á móti flóði af heim­il­is­laus­um Armen­um, sem hafa þurft að flýja aft­ur til upp­runa­lands­ins.

Sam­band ná­granna­ríkj­anna Aser­baíd­sj­an og Armen­íu hef­ur vægast sagt verið storma­samt í gegn­um tíðina. Rík­in hafa í tvígang farið í stríð hvort gegn öðru vegna Nagornó-Kara­bak – fyrst snemma á tí­unda ára­tugn­um eft­ir fall Sov­ét­ríkj­anna og svo aft­ur árið 2020.

Frá því í des­em­ber höfðu Aser­ar lokað einu leiðinni inn og út af svæðinu frá Armen­íu, sem kall­ast Lachin-gang­ur­inn, en nú hef­ur gang­ur­inn verið opnaður að nýju og um mánaðamótin höfðu rúm­lega 100 þúsund flótta­menn flust til Armen­íu, af þeim 120.000 íbúum sem bjuggu í héraðinu.

Ásakanir um þjóðernishreinsun

Stjórn­völd í Armen­íu hafa sakað Asera um þjóðern­is­hreins­un – ásök­un sem stjórn­völd í Aser­baíd­sj­an neita. Þau hafa hvatt Armena í Nagornó-Kara­bak til þess að yf­ir­gefa ekki heim­ili sín, held­ur aðlag­ast lífi í Aser­baíd­sj­an þar sem þau segja rétt­indi þeirra verða virt.

Friðargæsluliðar Sam­einuðu þjóðanna komu til Nagornó-Kara­bak í byrjun október, í fyrsta skiptið rúmlega 30 ár.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert