16 ára grunaður um þrjú manndráp

Sænska lögreglan hefur staðið í stórræðum undanfarna mánuði vegna skálmaldar …
Sænska lögreglan hefur staðið í stórræðum undanfarna mánuði vegna skálmaldar í Stokkhólmi og nágrenni sem ekki sér fyrir endann á. AFP/Fredrik Persson

Sextán ára gamli pilturinn, sem handtekinn var í Tullinge í sveitarfélaginu Botkyrka suður af sænsku höfuðborginni Stokkhólmi aðfaranótt föstudags í kjölfar vígs tveggja kvenna á heimili þekkts sænsks listamanns þar, er grunaður um þrjú manndráp.

Fyrir utan téð dráp liggur hann undir grun um að hafa skotið mann til bana nóttina áður í Västberga í Suður-Stokkhólmi auk tveggja tilrauna til manndráps þar sem kona og barn eru sár eftir þá atlögu sem einnig var gerð með þeim hætti að pilturinn ruddist inn á heimili og hóf skothríð. Sænska lögreglan hefur ítrekað rætt þá aðferðafræði glæpagengja undanfarið að beina árásum sínum að ættingjum þeirra er þau troða illsakir við.

Leigubifreiðarstjóri sem ók með piltinn af vettvangi aðfaranótt föstudags var upphaflega einnig handtekinn en honum sleppt úr haldi á föstudag eftir að sýnt þótti að hann hefði engin saknæm tengsl við málið.

Eins og mbl.is greindi frá á föstudaginn liggur pilturinn undir grun um á þriðja tug annarra brota, flest framin er hann var ósakhæfur aldurs vegna.

Ekki hefur náðst í Helenu Nordstrand saksóknara vegna mála piltsins að sögn sænska ríkisútvarpsins SVT.

SVT

Aftonbladet

AftonbladetII (árásin í Västberga)

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert