Stakk sex ára dreng til bana

Drengurinn var nýorðinn sex ára. Hann var stunginn oftar en …
Drengurinn var nýorðinn sex ára. Hann var stunginn oftar en 20 sinnum. AFP/Patrick T. Fallon

Maður í Illinois-ríki í Bandaríkjunum stakk sex ára gamlan dreng af palestínskum uppruna til bana.

Maðurinn veitti drengnum fleiri en 20 stungusár og hefur hann nú verið ákærður fyrir manndráp og hatursglæp.

Árásarmaðurinn særði enn fremur móður drengsins alvarlega. Hún var stungin oftar en tólf sinnum en talið er að hún muni lifa það af. BBC greinir frá. 

Árásarmaðurinn, Joseph Czuba, er 71 árs. Hann var leigusali mæðginanna, sem eru af palestínskum uppruna. Talið er að hann hafi ráðist á þau sökum þess að vera íslamstrúar.

Átökin milli Ísraelsríkis og Hamas-samtakanna eru einnig talin hafa haft áhrif á hegðun hans.

Bandaríkin segja þetta hatursglæp

Joe Biden Bandaríkjaforseti fordæmdi árásina harðlega. Hann segir Bandaríkin engan stað fyrir hryllilega hatursglæpi. Verknaðurinn brjóti í bága við grundvallargildi samfélagsins. 

Dómsmálaráðuneyti Bandaríkjanna rannsakar árásina sem hatursglæp. Drengurinn, sem hét Wadea al-Fayoume, fæddist í Bandaríkjunum. Móðir hans, Hanaan Shahin, hafði yfirgefið Vesturbakkann fyrir tólf árum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert