Tanya Chutkan, dómarinn sem stýrir réttarhöldum Donalds Trump, fyrrverandi Bandaríkjaforseta, fyrir meint samsæri um að reyna hnekkja niðurstöðu forsetakosninganna árið 2020, hefur meinað Donald Trump að gagnrýna saksóknara, dómstólinn og möguleg vitni í aðdraganda réttarhaldanna.
BBC greinir frá.
Ákvörðunin kemur í kjölfar nýlegra ummæla þar sem Trump sagði saksóknara tilheyra „hóp þrjóta“ og kallaði eitt vitni í málinu „kjarklaust svín“.
"Á hann að fá að hóta fólki því hann er í forsetaframboði," spurði Tanya Chutkan í kjölfar þess að lögmenn Trumps sögðu hann vera að stunda pólitík.
Trump stendur frammi fyrir þremur öðrum sakamálaréttarhöldum á næsta ári.
Alríkisréttarhöld yfir honum í Washington hefjast 4. mars á næsta ári.