Héldu upp á afmælið með manndrápi

Jonas Aarseth Henriksen, Vörubíla-Jonas eins og hann kallaði sig á …
Jonas Aarseth Henriksen, Vörubíla-Jonas eins og hann kallaði sig á TikTok, var vel liðinn atvinnurekandi í Ringerike og hvers manns hugljúfi. Einhver hafði þó horn í síðu hans og varð hann fyrir hvort tveggja skemmdarverkum á atvinnutækjum sínum og barsmíðum óþekktra aðila þar til hann var að lokum myrtur 17. ágúst. Ljósmynd/Úr einkasafni

Lögreglurannsókn máls Jonasar Aarseth Henriksens, þrítugs atvinnurekanda frá Hønefoss, skammt frá Ósló í Noregi, sem fannst myrtur við sumarbústað í Nes í Ådal í ágúst gefur nú æ heillegri mynd af manndrápi sem virðist hafa verið þaulskipulagt auk þess sem óvildarmaður Henriksens, sem þó þekkti hann ekki persónulega, liggur undir grun um að hafa greitt tveimur mönnum háa peningaupphæð fyrir skemmdarverk og að lokum manndráp.

Fimm manns sitja nú í gæsluvarðhaldi og einhverjir þeirra í algjörri einangrun vegna málsins og hefur norska dagblaðið VG valið þeim gælunöfn eftir búsetu.

Noresund-maðurinn er 32 ára gamall. Hann er grunaður um að hafa greitt tveimur öðrum fyrir ódæðið, Elverum-manninum og Rena-manninum, 30 og 28 ára gömlum, sem báðir hafa hlotið dóma – fyrir vopnaþjófnað er þeir stóðu saman að. Þeir þekktu Henriksen ekki.

Aðeins tveir yfirheyrðir enn sem komið er

Hønefoss-maðurinn og Jevnaker-maðurinn eru 32 og 35 ára, sá fyrrnefndi er grunaður um að hafa annast akstur þegar orðin „Tyster-Jonas“, eða „Jonas uppljóstrari“ voru úðamáluð á strætisvagnaskýli og víðar í Hønefoss, en sá síðarnefndi er gamall samstarfsmaður Henriksens.

Lögregla leggur hald á bifreið sem hún telur leigumorðingjana tvo, …
Lögregla leggur hald á bifreið sem hún telur leigumorðingjana tvo, Elverum-manninn og Rena-manninn, hafa notað við verk sín en þeir báru því við að hafa haldið í margra daga ferðalag til Hønefoss af öllum stöðum til að fagna 28 ára afmæli annars þeirra. Á sama tíma voru framin skemmdarverk á eigum Henriksens og skömmu eftir að afmælisförinni meintu lauk var hann myrtur. Ljósmynd/Vegfarandi

Enn er ekki ljóst hvaða ástæður bjuggu að baki því að Henriksen var ráðinn af dögum, lögregla hefur aðeins yfirheyrt tvo þeirra sem sitja í gæsluvarðhaldi og einn þeirra hefur ekkert gefið upp enn sem komið er að ráði verjanda síns.

Henriksen var áberandi á samfélagsmiðlinum TikTok þar sem hann gekk undir nafninu LastebilJonas eða Vörubíla-Jónas en hann rak fyrirtækið Henriksen Solutions AS sem boraði vatnsbrunna og var með nokkrar vörubifreiðar á sínum snærum auk steypubifreiðar.

Snemma í ágúst, þegar Henriksen átti um hálfan mánuð eftir ólifað, hitti hann Jevnaker-manninn á bensínstöð í Jevnaker þar sem hinn síðarnefndi hafði beðið hann að hitta sig vegna hugsanlegs verkefnis.

Í algjörri einangrun

Vissulega var þar á ferð verkefni en Henriksen hafði ekki hugmynd um að það verkefni var honum ekki ætlað að vinna heldur tveimur mönnum sem álengdar fylgdust með þeim Jevnaker-manninum. Þar voru komnir Elverum-maðurinn og Rena-maðurinn, meintir leigumorðingjar í málinu. Í fyrstu höfðu þeir þó aðeins fengið fyrirmæli um að misþyrma Henriksen rækilega en láta hann lifa.

Bensínstöðin í Jevnaker þar sem Jevnaker-maðurinn lokkaði Henriksen til móts …
Bensínstöðin í Jevnaker þar sem Jevnaker-maðurinn lokkaði Henriksen til móts við sig. Þar voru þó fleiri menn staddir sem Henriksen vissi ekki af. Menn sem áttu eftir að þiggja stórfé fyrir að skaða hann. Skjáskot/Google Street View

Ætlunin var að þeir félagar kæmu fyrir GPS-sendi á bifreið Henriksens meðan á bensínstöðvarfundinum stóð en sú fyrirætlun fór út um þúfur.

Ole Magnus Strømmen, verjandi Jevnaker-mannsins, neitar að tjá sig um málið við VG en verjandi Rena-mannsins getur ekkert tjáð sig þar sem hann hefur ekki fengið að hitta skjólstæðing sinn sem var úrskurðaður í algjöra einangrun vegna rannsóknarhagsmuna. Hann má ekkert frétta og engu miðla fyrr en hann hefur tjáð sig við lögreglu.

Elverum-maðurinn er hins vegar nýlega búinn að skipta um verjanda og nýi verjandinn vill fá að setja sig betur inn í málavöxtu áður en hann tjáir sig að ráði.

Afmælisferðin til Hønefoss

Fimmmenningarnir í varðhaldinu kváðust allir saklausir við gæsluvarðhaldsþinghald fyrir héraðsdómara en liggja allir undir grun fyrir ýmist manndráp eða samverknað við manndráp. Útskýringar Elverum-mannsins og Rena-mannsins eru á þá leið að sá síðarnefndi hafi átti afmæli í júlí og þeir félagar haldið í ferðalag til að fagna tímamótunum – sem þó voru ekki merkilegri en svo að hann varð 28 ára.

Var ferðinni, sem stóð dögum saman, einmitt heitið til Hønefoss en á sama tíma urðu bifreiðar Henriksens fyrir miklum skemmdarverkum, einkum steypubifreiðin en á upptöku öryggismyndavélar í aðstöðu Henriksens í Drammen sjást tveir menn koma aðvífandi í skjóli nætur og brjóta framljós bifreiðarinnar og framrúðu.

Einnig var skotið á bifreiðina og sýndu rannsóknir tæknideildar lögreglu á kúlunum sem fundust í ökumannsrými hennar að þær komu úr sömu byssu og Henriksen var skotinn til bana með.

Bakpokinn afhentur

Hefur Elverum-maðurinn, að sögn nýja verjandans, játað að hafa framið „einhver skemmdarverk“ í afmælisförinni en verjandanum er ekki kunnugt um í hverju þau fólust. Á einhverjum tímapunkti hittu leigumorðingjarnir frá Elverum og Rena óþekktan mann sem afhenti þeim bakpoka sem lögregla telur að hafi innihaldið 22 kalíbera skotvopn sem notað var hvort tveggja við skemmdarverkin og víg Henriksens.

Í skjóli nætur var málningu hellt yfir einkabifreið Henriksens við …
Í skjóli nætur var málningu hellt yfir einkabifreið Henriksens við heimili hans. Myndin var notuð í tengslum við viðtal við hann í Hlaðvarpinu Avhørt, Yfirheyrður, um ítrekuð skemmdarverk og ofsóknir sem lögreglunni í Ringerike var vel kunnugt um löngu áður en hann var ráðinn af dögum. Ljósmynd/Hlaðvarpið Avhørt

Miðvikudaginn 9. ágúst segja tvímenningarnir afmælisferðinni hafa lokið og þeir haldið heim. Verkefni þeirra var hins vegar ekki lokið, að ósk og fyrir greiðslu Noresund-mannsins áttu þeir að skaða Henriksen, ekki er ljóst hvort ætlunin var að fórnarlambið léti lífið.

Henriksen og Noresund-maðurinn þekktust ekki persónulega en sá síðarnefndi hafði horn í síðu hins af ástæðum sem enn eru ókunnar og líkast til fleiri en ein. Þetta leggur lögregla til grundvallar í málinu þótt hún skoði einnig fleiri þætti. Jon Anders Hasle, verjandi Noresund-mannsins, segir í samtali við VG að enn sé of snemmt að segja til um hlutverk grunuðu í málinu og hvað liggi að baki.

„Það skal enn fremur tekið fram að skjólstæðingur minn heldur fram sakleysi sínu,“ segir Hasle um sinn mann sem áður hefur verið dæmdur fyrir ofbeldisverk.

Á tjaldstæði á kafi í vatni

Þriðjudaginn 15. ágúst, tveimur dögum áður en lík Henriksens fannst við sumarbústaðinn, skráir Rena-maðurinn sig inn á Sperillen-tjaldstæðið og ritar nafn sitt þar í gestabók. Tjaldstæðið er í tólf mínútna akstursfjarlægð frá líkfundarstaðnum. Óveðrið Hans hafði sett sitt mark á landshlutann og tjaldstæðið var meira og minna undir vatni úr stöðuvatninu sem það stendur við.

Henriksen fær á þessum tíma tilboð um verk frá spænskum manni í Drammen. Eða það heldur hann. Spánverjinn veit ekkert af tilboðinu sem hann er að gera þar sem hann hafði orðið fórnarlamb auðkennastulds og sá sem hefur samband við Henriksen er Norðmaður, líkast til einn þeirra er nú sitja í gæsluvarðhaldi.

Þeir mæla sér mót og vill „Spánverjinn“ hitta Henriksen við sumarbústaðinn þar sem hann örskömmu síðar finnst látinn. Lögregla þykist þess fullviss að þeir sem raunverulega komu til móts við Henriksen þennan ágústdag hafi verið þeir Elverum-maðurinn og Rena-maðurinn.

Á engan möguleika á að taka afstöðu

Sá síðarnefndi hefur tvo verjendur sér til fulltingis. Annar þeirra er Thomas Randby. „Skjólstæðingur okkar hefur setið í algjörri einangrun síðan hann var handtekinn. Hann hefur engan aðgang að fjölmiðlum og fær ekki að sjá nein málsgögn,“ skrifar Randby í tölvupósti til VG.

„Þetta gerir það að verkum að við sem verjendur sjáum okkur ekki fært að leggja þær upplýsingar og spurningar sem VG hefur fyrir skjólstæðinginn. Hann á engan raunverulegan möguleika á að taka afstöðu til þeirra fullyrðinga og kenninga sem blaðið setur fram,“ skrifar hann enn fremur. Það er einmitt þeirra skjólstæðingur sem hefur að ráði verjenda sinna ákveðið að tjá sig ekki við lögreglu.

Fimm gæsluvarðhaldsfangar kveðast allir saklausir þótt einn þeirra neiti að …
Fimm gæsluvarðhaldsfangar kveðast allir saklausir þótt einn þeirra neiti að tjá sig nokkuð við lögregluna en sá hefur tvo verjendur sér til fulltingis. Enn þá er það ráðgáta fyrir hvað Jonas Aarseth Henriksen mátti gjalda fyrir með lífi sínu 17. ágúst. Ljósmynd/Úr einkasafni

Eitt af því síðasta sem Henriksen gerði í lifanda lífi var að senda samstarfsmanni sínum upplýsingar um að hann væri á leið að hitta „Spánverjann“ og lét hann fylgja skjámynd af staðnum af kortavef Google. Þegar samstarfsmaðurinn tók að óttast um Henriksen hélt hann á staðinn og fann lík hans þar í ökumannssæti bifreiðar sem Henriksen hafði ekið á staðinn.

Ógnaði barni með skotvopni

Næstu klukkustundir eftir að Henriksen var myrtur dreifðu hinir grunuðu í málinu sér í allar áttir. Rena-maðurinn á sér þó haldlitlar fjarvistarsannanir. Buxur með erfðaefni hans fundust á vettvangi líkfundarins auk þess sem borin voru kennsl á hann af myndum eftir að hann ógnaði unglingi undir lögaldri með drápsvopninu í miðbæ Rena sama kvöld.

Réttargæslulögmaður fjölskyldu Henriksens, Marijana Lozic, kveður skjólstæðinga sína þakkláta lögreglunni fyrir að sinna málinu af þeirri alvöru sem raun ber vitni en eins og fram kemur í umfjöllun mbl.is sem hlekkjuð er við hér að ofan var lögreglu vel kunnugt um að Henriksen átti undir högg að sækja hjá óþekktum manni eða mönnum.

„Þau eru þakklát þeim sem veitt hafa lögreglu ábendingar í málinu og enn þá er mikilvægt að fólk hafi samband við lögreglu telji það sig búa yfir upplýsingum er skipt geta máli,“ segir Lozic.

Lögregla útilokar ekki fleiri handtökur vegna vígs Jonasar Aarseth Henriksens er fram líður.

VG

Dagbladet

TV2

NRK

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert