Tók á móti „kærum vini“ sínum Pútín

Pútín og Xi Jinping í Peking í morgun.
Pútín og Xi Jinping í Peking í morgun. AFP/Sergei Savostyanov

Xi Jinping, forseti Kína, tók á móti „kærum vini” sínum, Rússlandsforsetanum Vladimír Pútín, í Peking, höfuðborg Kína í dag.

Tilefnið var alþjóðleg ráðstefna, haldin í skugga átakanna fyrir botni Miðjarðarhafs.

Kínversk stjórnvöld taka í þessari viku á móti fulltrúum frá 130 löndum þar sem rætt verður um viðskipta- og innviðaverkefni Xi, Belti og braut.

Efstur á gestalistanum er Pútín, sem er í sinni fyrstu heimsókn til alþjóðlegs stórveldis síðan Rússar réðust inn í Úkraínu með þeim afleiðingum að rússneska þjóðin einangraðist alþjóðlega.

AFP/Sergei Savostyanov

Leiðtogarnir tveir hittust í gær við upphaf ráðstefnunnar.

Xi, sem hefur kallað Pútín „kæran vin“ sinn, hélt ræðu í opinberum kvöldverði þar sem hann minntist á átökin í Mið-Austurlöndum en bætti við:

„Þrátt fyrir að heimurinn í dag sé ekki friðsamur, þrýstingur á alþjóðleg efnahagsmál sé að aukast og framþróun í alþjóðamálum standi frammi fyrir áskorunum þá trúi ég því að söguleg tilhneiging í átt að friði, þróun, samstarfi og sameiginlegum sigrum verði ekki stöðvuð,” sagði Xi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert