Árás gegn Bandaríkjamönnum eykur á ótta við stríð

Bandarískir hermenn í Írak. Mynd úr safni.
Bandarískir hermenn í Írak. Mynd úr safni. AFP/Stringer

Tveir sjálfseyðingardrónar, sem skotið var að bækistöðvum bandarískra hermanna í Írak, voru skotnir niður snemma í morgun.

Nokkrum klukkustundum síðar tilkynnti sveit vígamanna í Írak, studd írönskum yfirvöldum, að hún hefði hafið aðra drónaárás á aðra herstöð. Engar fregnir hafa borist af áverkum í kjölfar hvorugrar árásarinnar.

Bandarískur embættismaður, sem tjáir sig um málið við fréttastofu ABC undir nafnleynd, staðfestir árásina og að komið hafi verið í veg fyrir hana, en kveðst ekki vilja segja hvaða herstöð hafi verið skotmarkið.

Sífellt aukinnar spennu gætir í heimshlutanum og óttinn við að stærra stríð brjótist þar út hefur stigmagnast í kjölfar átaka Ísraels og Hamas-hryðjuverkasamtakanna, segir í umfjöllun miðilsins.

Ógnir víða

Frá upphafi styrjaldarinnar þann 7. október hafa allra augu beinst að Hisbollah, þeim öflugu samtökum líb­anskra víga­manna sem njóta stuðnings klerka­stjórn­ar­inn­ar í Íran, og heljarmiklu vopnabúri þeirra.

Árásir samtakanna yfir landamærin við Ísrael hafa verið í takmörkuðum mæli það sem liðið er af átakatímanum.

En vígasveitir í Írak, sem eru sömuleiðis studdar af Írönum, hafa einnig hótað því að ráðast gegn bækistöðvum bandarískra hermanna vegna stuðnings yfirvalda í Washington við Ísrael.

Meiri floti á leiðinni

Varn­ar­málaráðherra Banda­ríkj­anna fyrirskipaði á laugardagskvöld öðru flug­móður­skipi, ásamt öll­um þeim her­skip­um sem því fylgja, að hefja sigl­ingu að botni Miðjarðar­hafs.

Tekið var fram í tilkynningu að flug­móður­skipið, sem nefn­ist Dwig­ht D. Eisen­hower, myndi sigla til liðs við flug­móður­skipið Ger­ald R. Ford, stærsta her­skip ver­ald­ar sem þegar ligg­ur und­an strönd­um Ísra­els.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert